Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, treystir Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, til að leiða flokkinn áfram í umræðunni um útlendingamál. Hún telur gagnrýnina sem flokkurinn hefur fengið í kjölfar orða sem Kristrún lét falla í hlaðvarpsþættinum Ein pæling full harkalega.
Kristrún sagði meðal annars í hlaðvarpsþættinum að hælisleitendakerfið hér á landi væri ósjálfbært og að Ísland ætti ekki að skera sig frá Norðurlöndum. Spurð hvort henni þætti að Ísland ætti að taka á móti færra fólki svaraði Kristrún því játandi og sagði að stjórnvöld þyrftu að setja sér markmið sem þau gætu staðið undir. Þá væri ekki hægt að vera með opin landamæri samhliða sterku velferðarkerfi.
Ýmsir samflokksmenn Kristrúnar hafa gagnrýnt orð hennar. Þó hefur Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tekið undir orð Kristrúnar sem og Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar.
Hvorki hefur náðst í Loga Einarsson þingflokksformann né Þórunni Sveinbjarnardóttur þingmann. Oddný G. Harðardóttir þingmaður mun ekki tjá sig um málið fyrr en það hefur verið rætt innan þingflokksins.
Dagbjört segir það ekki vera stefnu Samfylkingarinnar að taka á móti sem fæstum flóttamönnum. Hún taki þó heilshugar undir orð Kristrúnar um að það sé mikilvægt að stjórnvöld setji sér raunhæf markmið til að velferðarkerfi og innviðir geti sinnt öllum sem hingað koma.
Spurð hvort hún sé sammála Kristrúnu um að hælisleitendakerfið hér á landi sé ósjálfbært og að Ísland eigi ekki að skera sig úr frá Norðurlöndum segir Dagbjört:
„Sjálfstæðismönnum hefur ekki tekist að búa til farsælt kerfi hér á landi. Þegar kemur að því að við skerum okkur ekki úr á norræna vísu er það flóknara vegna þess að Norðurlöndin búa ekki við innbyrðis samræmt kerfi. Ísland ber hins vegar skyldu til þess að búa til kerfi sem er sjálfbært.“
Telur Dagbjört mikilvægt að umræðan um útlendingamál sé tekin.
„Ég held að það sé mjög slæmt ef að við getum ekki tekið umræðuna. Við eigum ekki að vera hrædd við að setja okkur markmið og meta það hvers kerfin okkar eru megnug til að gera vel við alla hópa. Það er hlutverk jafnaðarmanna að gera það.“
Guðrúnar Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur áform um að koma á laggirnar lokuðu búsetuúrræði fyrir þá sem á að vísa úr landi. Í umræddum hlaðvarpsþætti sagðist Kristrún hafa skilning á áformum Guðrúnar. Hún setti þó athugasemdir við það að börn yrðu vistuð í úrræðinu.
Dagbjört tekur undir með Kristrúnar um að börn eigi ekki að dvelja í lokuðu búsetuúrræði. Hún telur þó farsælla að fullorðið fólk verði vistað í slíku úrræði frekar en að vista það á Hólmsheiði.
„Við erum að sjá fólk núna vistað á Hólmsheiði án dóms og laga. Ég held að það væri farsælla ef við værum með mildara millistig fyrir fólk sem yrði annars vistað þar. Það yrði þá einhverskonar búsetuúrræði.“
Samfylking hefur hlotið talsverða gagnrýni frá flokksmönnum fyrir þessa stefnubreytingu í útlendingamálum. Dagbjört telur gagnrýnina full harkalega.
„Mér finnst þetta full harkaleg gagnrýni. Það er hlutverk okkar jafnaðarmanna að vera sífellt að meta það hvað innviðirnir okkar eiga að gera og hvað þeir geta gert. Þar erum við með miklu fastmótaðri stefnu heldur en nokkur annar stjórnmálaflokkur á Alþingi.“
Það hafa ýmsir stigið fram og gagnrýnt ykkur. Að undanförnu hafið þið verið mælast með gott fylgi. Ertu hrædd um að þið fælið frá ykkur kjósendur?
„Við getum ekki látið það stjórna okkur. Við erum að mælast vel vegna þess að við tölum með nýjum hætti um það hversu mikilvæg velferðarkerfin okkar eru,“ segir Dagbjört og bætir við:
„Hluti af því er að vera ekki að lofa upp í ermina á okkur. Við verðum að tala af ábyrgð og festu í þessum málaflokki, sem og öðrum, en með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi.“
Dagbjört telur flokkinn ekki vera færa sig til miðju eða hægri í útlendingamálum, eins og sumir hafa gagnrýnt hann fyrir.
„Við erum félagshyggjuflokkur. Það er og verður. Við erum að tala af ábyrgð um málaflokkana okkar. Hluti af því að lofa betur er það að vera búin að meta það með eins gaumgæfilegum hætti og unnt er, miðað við þær forsendur sem við höfum, hvað við getum gert fyrir fólk í landinu. Gagnrýni á að það sé gert og að það feli í sér einhverskonar hægri áherslur finnst mér ekki sanngjörn.“
Spurð hvort mikill ágreiningur sé um útlendingamál innan þingflokks Samfylkingarinnar segir Dagbjört: „Ég tel svo ekki vera. Ég treysti formanninum til að leiða okkur áfram í þessu samtali.“