Miklir veikleikar eru í landamæravörslu Íslands sem olli því að palestínskur flóttamaður komst aftur til landsins eftir að hafa áður verið synjað um alþjóðlega vernd og vísað úr landinu. Maðurinn sem um ræðir er annar tveggja stungumanna í stungumáli sem átti sér stað í Fossvogi fyrr í vikunni.
Þetta segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, í samtali við mbl.is.
Páll birti færslu um stungumálið á Facebook þar sem hann vakti athygli á því að annar mannanna hefði árið 2021 komið til Íslands og sótt um hæli sem pólitískur flóttamaður, þrátt fyrir að vera með vernd í Grikklandi. Manninum var synjað um vernd og í október 2022 þurfti að sögn Páls fleiri lögreglumenn en venja kveður á um við að vísa manninum úr landi sökum þess hversu hættulegur hann var.
Þann 12. október komu lögreglumennirnir þrír aftur til Íslands, eftir ferðina með manninn til Aþenu, en aðeins degi seinna var Palestínumaðurinn aftur mættur til Íslands til að sækja um vernd á ný. Páll segir enn fremur í færslunni að maðurinn hafi fengið á sig endurkomubann.
„Ástæðan fyrir því að ég er að segja þessa sögu með þessum hætti er til að sýna fram á þessa ótrúlegu veikleika í landamæravörslunni hér á Íslandi,“ segir hann og bætir við að uppruni mannsins hafi ekkert með málið að gera.
Hjördís Sigurbjartsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti í samtali við mbl.is að stungumennirnir tveir í málinu væru báðir Palestínumenn sem fengu veitta vernd hér á landi í fyrra.
„Að það skuli vera hægt að koma hingað aftur inn til landsins og fara í gegnum landamæraeftirlitið, tveimur dögum eftir að maður er fluttur út í lögreglufylgd með endurkomubanni. Veikleikinn í þessu hlýtur auðvitað að vera sá, fyrst og fremst, að erlendum flugfélögum sem eru að fljúga hér til Íslands er ekki skylt að vera með farþegalista eða skanna vegabréf þeirra sem eru að koma til landsins. Þetta þýðir einfaldlega það að það getur hver sem er komið hingað inn, eiginlega eftirlitslaust, með þessum hætti,“ segir Páll.
Páll segir að í ljósi þess að aðeins eitt landamærahlið sé inn í landið ætti að vera auðveldast á Íslandi að hafa stjórn á landamærunum samanborið við önnur Evrópuríki.
„En það höfum við ekki af þessum ástæðum,“ segir Páll.
Hann ítrekar að ástæða færslu hans hafi ekkert með ástandið á Gasa að gera, heldur aðeins hvernig Ísland sinnir landamæravörslu. Segir hann að hann að hefði aldrei birt þessa færslu um manninn án þess að vera með áreiðanlegar heimildir fyrir færslunni.
„Ég hefði aldrei sagt frá þessu nema ég teldi upplýsingarnar sem ég hefði innan úr kerfinu vera fullkomlega áreiðanlegar.“
Spurður hvað hann væri til í að gera til að breyta málaflokknum segir hann að hægt sé rekja söguna í einhvern tíma til að skilja hvernig málaflokkurinn sé kominn á þann stað sem hann er.
Nefnir hann útlendingalögin sem voru samþykkt árið 2016 og kærunefnd útlendingamála, sem komst á sínum tíma að þeirri niðurstöðu að veita hælisleitendum frá Venesúela sjálfkrafa vernd.
„Við vorum bara með lægri girðingar heldur en aðrir. Og við höfum verið með lægri girðingar en aðrir, bæði með notkun dyflinnarreglugerðarinnar og annara hluta, heldur en aðrir á Norðurlöndum.“