Ásdís Ásgeirsdóttir
Sérfræðilæknirinn Erla Gerður Sveinsdóttir sérhæfir sig í offitumeðferð. Hún telur að Wegovy, sem er nýtt lyf við ofþyngd og offitu, geti hjálpað mörgum.
„Meltingarvegurinn framleiðir hormón sem sendir ýmis skilaboð, meðal annars til heilans um að við séum orðin södd. Lyfið sest á þessa viðtaka sem hormónin ættu að setjast á, en okkar hormón lifir svo stutt. Lyfið situr lengur og hefur þá meiri áhrif. Þannig ýkir lyfið upp hormón sem við erum með í okkur en erum ekki með nóg af eða virkar ekki rétt. Það hjálpar líkamanum að stýra þyngdinni betur, en lyfið veldur því að við erum fyrr södd og verðum síður svöng,“ segir Erla og segir marga ná frábærum árangri með lyfinu, sem bendi þá til þess að röskun sé á fyrrnefndu hormónakerfi. Ef enginn árangur næst liggur vandinn þá annars staðar.
Erla segir fólk sem tekur lyfið ekki aðeins upplifa seddu og minni svengd heldur almennt minni löngun í mat.
„Margir segja að þeir fái loksins frið fyrir stanslausum matarhugsunum. Aðrir losna við löngun í sykur og skyndiorku.“
Ítarlegra viðtal er við Erlu Gerði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og í Dagmálsþætti sem er opinn áskrifendum hér.