Ekki hefur tekist að finna lekann á heitavatnslögninni til Grindavíkur. Þetta staðfestir Sigrún Inga Ævarsdóttir, samskipta- og markaðsstjóri HS Veitna í samtali við mbl.is. Að finna lekann gæti tekið nokkra daga en unnið er allan sólarhringinn á svæðinu segir hún.
Verið er að grafa niður í gegnum hraunið til þess að komast að lögninni á því svæði þar sem grunað er að lekinn sé staðsettur. Þrýstingur í dreifikerfinu í Grindavík hefur mælst mjög lágur og á fimmtudag kom í ljós að lekinn er skýring á því.
Um er að ræða Grindavíkuræðina sem liggur úr Svartsengi til Grindavíkur. Vandinn snýr því ekki að Reykjanesbæ.
Aðspurð um hvort vitað sé nákvæmlega hvar lekinn er staðsettur segir Sigrún svo ekki vera. Verið er að vinna að því að grafa niður á því svæði þar sem talið er að lekinn sé en erfitt er að segja til um það hvort það sé réttur staður.
„Það verður tekin ákvörðun ef þess þarf, þegar búið er að grafa niður að lögninni, hvort það þurfi að grafa niður á öðrum svæðum.“
Sigrún segir allan tiltækan mannskap vinna að því að finna lekann. Hlé var gert á vinnu í gær en byrjað var aftur í dag.
Hún segir erfitt að meta nákvæmlega hversu langan tíma það muni taka að grafa niður að lögninni, en að minnsta kosti verða þetta nokkrir dagar til viðbótar.
Staðan á vatnsmagni sem berst til Grindavíkur er svipuð og hún hefur verið síðustu daga að sögn Sigrúnar. Ekki er að sjá nein merki um að breyting verði á því.
„Það er enn um helmingur af vatninu að berast inn til Grindavíkur. Þetta hefur þær afleiðingar að minni þrýstingur er í kerfinu. Það er samt sem áður heitt vatn að berast til flestra húsa í Grindavík.“
Þá segir hún að vel hafi gengið að gera við þá leka sem vitað var um í kerfinu inn í Grindavík. Kerfið ætti því í raun að vera tilbúið þegar búið er að gera við þennan leka. Þá ætti að nást fullur þrýstingur á kerfið og meira heitt vatn mun þá berast í bæinn.