Logi sammála Kristrúnu um útlendingamálin

Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar kveðst sammála formanninum, Kristrúnu Frostadóttur.
Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar kveðst sammála formanninum, Kristrúnu Frostadóttur. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

„Ég tel ekki að um sé neina grundvallarstefnubreytingu að ræða heldur bendi hún á að þessi nýi veruleiki sem við búum við kalli á nýja nálgun,“ segir Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, inntur eftir viðbrögðum við gagnrýni á ummæli Kristrúnar Frostadóttir, formanns flokksins, um málefni útlendinga hér á landi.

Í samtali við mbl.is bendir Logi á að í tíð sitjandi ríkisstjórnar hafi fjöldi innflytjenda af EES-svæðinu tvöfaldast, sem sé mesta fjölgun innan OECD-landanna. Tjáði hann sig einnig um málið í færslu á Facebook-reikningi sínum.

Kristrún tjáði sig nýverið í hlaðvarpinu Ein pæling og sagði þar hælisleitendakerfið á Íslandi ósjálfbært og að ekki væri hægt að vera með opin landa­mæri sam­hliða vel­ferðar­kerf­inu.

Ekki eingöngu vinnuafl í láglaunastörf

„Það er bara mjög mikilvægt að við munum að þetta er fólk sem hefur þarfir, líkt og innfæddir, og mikilvægt að það sé ekki eingöngu litið á það sem vinnuafl sem að leiti á láglaunastörf og geti ekki verið þátttakendur í íslensku samfélagi,“

Þá hafi hringlandaháttur stjórnvalda, í framkvæmd sem einkennist af löngum biðtíma, leitt af sér mikinn umframkostnað í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, ásamt því að gefa fólki í erfiðri stöðu, misvísandi skilaboð og falskar væntingar.

„Hún talar um það að þessi nýja nálgun í þessum nýja veruleika sé nauðsynleg, enda byggi hún þá áfram á gildum jafnaðarmanna um mannréttindi og mannúð. Ég treysti henni bara mjög vel til þess að leiða hana og styð hana í því,“ segir Logi

Umræðan óábyrg af hálfu annarra flokka

Nú kveðst þú ósammála því að um stefnubreytingu sé að ræða, en þetta er engu að síður tónn sem hefur ekki verið sleginn með svo skýrum hætti frá Samfylkingarfólki, sérstaklega á ykkar árum í stjórnarandstöðunni. Teljið þið þetta hafa áhrif á fylgi ykkar hvort sem þau kunna að vera jákvæð eða neikvæð? 

„Við höfum ekkert velt því fyrir okkur. Þetta er auðvitað bara ábyrgt hjá henni að stíga fram með þessum hætti í ljósi þess sem ég sagði áðan. Við erum á nýjum stað í okkar samfélagi og það sem skiptir máli, og hún hefur bent á, að það sé auðvitað ekki ábyrgt að standa þannig að þessum málum að við gerum þessu fólki ekki kleift að vera þátttakendur á jákvæðan hátt í okkar samfélagi. Við þurfum bara að ræða þessi mál,“ segir Logi. 

Hann segir tóninn vissulega skarpan en nauðsynlegan inn í umræðuna um þessar mundir, enda hafi hún verið óábyrg af hálfu annarra flokka að undanförnu. Þar á meðal flokka sem hafi borið ábyrgð á málaflokknum síðustu ár og jafnvel áratugi. 

Hefur þetta þá verið rætt sérstaklega innan flokksins? 

„Já já, við höfum rætt þetta í þingflokknum og þetta hefur verið rætt á öðrum vettvangi flokksins líka. En það sem snýr að mér er auðvitað þingflokkurinn.“

Ummæli Bjarna af öðrum toga en Kristrúnar

Spurður út í tímasetningu ummæla Kristrúnar, í ljósi ummæla Bjarna Benediktssonar um að herða þurfi reglur um hælisleitendamál í Facebook-færslu um mótmæli Palestínumanna á Austurvelli, segir Logi þau ummæli vera af öðrum toga.

Hann sé sammála Kristrúnu um það að það sé ósmekklegt að stilla upp þessum hópi dvalarleyfishafa, sem búi við hryllilegar aðstæður á Gasa og séu með réttmætar væntingar til stjórnvalda, og blanda því inn í stóru umræðuna um útlendingamál og innflytjendur almennt.

„Það var mjög óábyrgt af honum,“ bætir Logi við. 

Búsetuúrræði geti verið góð í einhverjum tilfellum

„Við viljum ekki neinar skammtímalausnir sem byggja á einhverjum popúlisma. Við viljum bara taka umræðuna um þetta á mjög ábyrgan hátt og það er mjög skýr munur á okkur og t.d. sjálfstæðismönnum og það mun auðvitað koma berlega í ljós í meðferðum þeirra mála sem koma inn í þingið bæði varðandi útlendingalög og búsetuúrræði.“ 

Hann telji rétt að þau fái sína þinglegu meðferð, eitt sé að stofna til búsetuúrræða en annað sé hvaða skilyrðum slíkum úrræðum yrðu sett.  Samfylkingin geri ákveðin fyrirvara þar á og þar þurfi til að mynda að taka fyrir hvort um sé að ræða langtíma úrræði og hvort gert sé ráð fyrir að börnum yrði gert að dvelja þar. 

„En í einhverjum tilfellum þá getur vel verið að þetta sé gott.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert