Þjóðarópera innan Þjóðleikhúss frá 2025

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Ný þjóðarópera verður stofnuð innan Þjóðleikhússins, en aðalaðsetur hennar verður í Hörpu sem mun aðlaga rými sín fyrir aukna óperustarfsemi í húsinu. Þá er gert ráð fyrir að sýningar verði í Hörpu, í Hofi á Akureyri og víðar. Þjóðarópera verður skipuð tólf einsöngvurum og sextán manns í kór, auk fasts starfsfólks.

Horft er til þess að Þjóðaróperan taki til starfa strax í ársbyrjun á næsta ári og verði markvisst byggð upp. Áætlaður árlegur kostnaður í málaflokkinn verður um 800 milljónir.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í frumvarpsdrögum sem Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Þjóðarópera hefur um nokkur skeið verið á teikniborðinu, en í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er meðal annars talað um að unnið skuli að þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu með það að markmiði að setja á laggirnar þjóðaróperu.

Fjölga á um tvo í þjóðleikhúsráði, en gert er ráð fyrir að þeir hafi reynslu af vettvangi óperulista. Þá á að skipa óperustjóra til fimm ára í senn. Hann mun heyra undir þjóðleikhússtjóra í skipuriti, en hafa sjálfstæði í stjórnun þjóðaróperu og bera listræna ábyrgð á henni.

Auka á framlag um 600 milljónir árlega

Gert er ráð fyrir að Þjóðarópera ráði yfir 12 fullum stöðugildum fyrir einsöngvara og 16 hálfum stöðugildum fyrir kór, auk fasts starfsfólks. Þá er gert ráð fyrir fræðslustarfi, samstarfi við tónlistarfélög, leikfélög og kóra á landsbyggðinni, auk samstarfs við grasrót, en einnig skal stefnt að því að íslensk verk verði árlega á dagskrá.

Með frumvarpsdrögunum kemur fram að lagt sé til að þjóðaróperan hefji starfsemi sína í áföngum og verði byggð upp í markvissum skrefum frá næstu áramótum. Ekki er gert ráð fyrir auknum fjárframlögum í málaflokkinn í gildandi fjármálaáætlun, en við undirbúning fjármálaáætlunar 2025-2029 kemur fram að óskað verði eftir að varanlegt fjármagn til óperustarfsemi aukist um 600 milljónir í áföngum og verði samtals 800 milljónir árleg frá og með árinu 2028.

Vantraust og kergja innan óperugeirans

Skiptar skoðanir hafa verið um hvernig staðið sé að því að koma þjóðaróperu á laggirnar. Klassís, félag klassískra söngvara á Íslandi, lýsti árið 2021 yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar og gagnrýndi stjórnunarhætti hennar. Í fyrra var Íslensku óperunni svo greint frá því að rekstrarframlögum til stofnunarinnar verði hætt. Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar, sagði þá gríðarlegt menningarslys í uppsiglingu. 

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar. mbl.is/Hari

Klassís hefur hins vegar stutt áformin um þjóðaróperu og sagt að Íslenska óperan þurfi að taka ábyrgð á þeirri stöðu sem komin sé upp í óperumálum hér á landi. 

„Til þess að svo megi verða þarf stjórn Íslensku óper­unn­ar að sleppa tak­inu, sýna sam­stöðu með öll­um þeim sem að fag­inu koma og fagna áform­um sem munu efla óperu­starf­semi, styrkja starfs­vett­vang söngv­ara og auðga sviðslist­a­lífið í land­inu,“ sagði í yfirlýsingu Klassís í fyrra.

Gissur Páll Gissurarson, söngvari og formaður Klassís.
Gissur Páll Gissurarson, söngvari og formaður Klassís. mbl.is/Golli

Tveir starfshópar innan ráðuneytisins unnu að skýrslum um mögulega þjóðaróperu og skiluðu tillögum sínum til ráðherra í fyrra. Var í kjölfarið auglýst eftir verkefnastjóra að undirbúningi að stofnun þjóðaróperu, auk þess sem ráðgjafaráð er honum innan handar. Var Finnur Bjarnason ráðinn sem verkefnastjóri til eins árs í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert