Ákvörðun um að víkja Jóhanni úr landsliði stendur

Jóhann Rúnar Skúlason
Jóhann Rúnar Skúlason mbl.is/Helgi Bjarnason

Dómstóll ÍSÍ hefur hafnað kröfu Jóhanns Rúnars Skúlasonar um að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar Landssambands hestamannafélaga og landsliðsnefndar sambandsins um að víkja honum úr landsliðshópi Íslands í hestaíþróttum.

Málið nær aftur til ársins 2021 þegar Jóhanni Rúnar var vikið úr landsliðshópnum eftir að upplýsingar komu fram um dóm sem hann hafði hlotið fyrir kynferðisbrot.

Jóhann Rúnar kærði málið til ÍSÍ árið 2023. Dómstóll ÍSÍ vísaði málinu frá á grundvelli þess að kærufrestur væri liðinn. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ lagði í framhaldinu fyrir dómstól ÍSÍ að taka kröfur Jóhanns Rúnars til efnismeðferðar. Munnlegur málflutningur hófst 1. febrúar síðastliðinn og var málið dómtekið í kjölfarið.

Metoo hafi ráðið ákvörðuninni

Í málatilbúnaði Jóhanns Rúnars kom fram að hann teldi ákvörðunina um að víkja honum úr landsliðshópnum vera „ólögmæta, ómálefnalega, órökstudda og gerræðislega”.

Einnig vísaði hann til þess að ákvörðunin varðaði hann miklu fyrir atvinnu enda lægi fyrir að góður árangur keppenda á heimsmeistaramóti auki atvinnumöguleika þeirra að keppni lokinni.

Þá vísaði hann jafnframt til þess verið væri að refsa honum umfram þá refsingu sem hann væri nú þegar búinn að afplána samkvæmt dómi frá ári 1994.

„Þá sé augljóst að „metoo” bylting hafi ráðið hinni kærðu ákvörðun kærða,” segir í málatilbúnaði hans.

Húsnæði ÍSÍ í Laugardalnum.
Húsnæði ÍSÍ í Laugardalnum. mbl.is/Árni Sæberg

Tvær ábendingar bárust formanni

Fram kom í málatilbúnaði Landssambands hestamannafélaga að seinnihluta október 2021 hefði formanni sambandsins borist tvær ábendingar sem vörðuðu Jóhann Rúnar.

„Sú fyrri barst þann 21. október 2021 um dóm sem kærandi hafði hlotið vegna refsiverðrar háttsemi hans í Danmörku. Í kjölfar ábendingarinnar kveður kærði að formaður kærða hafi haft símasamband við kæranda þar sem óskað var eftir hans hlið málsins. Í kjölfarið var ábendingunni svarað af hálfu kærða. Síðari ábendingin barst 28. október 2021 þar sem athygli var vakin á dómi héraðsdóms Norðurlands vestra frá árinu 1994 þar sem kærandi hlaut refsidóm fyrir kynferðisbrot gegn barni,” segir í málatilbúnaðinum.

Málið var tekið upp á stjórnarfundi í kjölfarið, þar sem afgreiðslu var frestað til frekari öflunar gagna. Á sérstökum stjórnarfundi sama dag var málið tekið fyrir að nýju og samþykkt að víkja Jóhanni Rúnari úr A-landsliði hestamanna.

Hafi setið undir hótunum 

„Kærði vísar ennfremur til þess að fyrir umrædda ákvörðun og eftir hana hafi aðilar sem starfa innan kærða mátt sitja undir hótunum, áreiti og annarri óforsvaranlegri háttsemi kæranda. Hafi sú framkoma gagnvart stjórnendum kærða og íþróttinni í heild sinni verið með þeim hætti að hún ein og sér myndi leiða til þess að kærandi hafi fyrirgert landsliðssæti sínu,” segir ennfremur í málatilbúnaðinum, þar sem þess var krafist að málinu væri vísað frá dómi.

Hægt að útiloka vegna refsidóma

Í niðurstöðu dómstóls ÍSÍ kemur fram að lög sambandsins kveði á um að hægt sé að útiloka fólk frá keppni vegna brota á ákvæðum almennra hegningarlaga.

„Það er álit dómsins að refsidómar vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 geti haft í för með sér óhlutgengi, þ.e. útilokun frá keppni, skv. lögum ÍSÍ gr. 38.2 lið c) i). Jafnframt þarf að taka afstöðu til þess hvort háttsemi kæranda, sem kærði byggir á, um að fyrir umrædda ákvörðun og eftir hana hafi aðilar sem starfa innan kærða mátt sitja undir hótunum, áreiti og annarri óforsvaranlegri háttsemi kæranda, falli undir ákvæðið,” segir í niðurstöðu dómstólsins.

„Það er álit dómsins og gegn mótmælum kæranda að ofangreind háttsemi kæranda sé þess eðlis að hún útiloki kæranda frá þátttöku í keppnum, skv. gr. 38.2 lið c)i) í lögum ÍSÍ, sem leiðir til þess að hafna ber kröfu kæranda í málinu.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert