Andlát: Agnar Rafn J. Levy

Agnar Rafn J. Levy, bóndi í Hrísakoti og fyrrverandi oddviti og hreppstjóri Þverárhrepps, varð bráðkvaddur á heimili sínu 16. febrúar sl. Hann fæddist á Ósum á Vatnsnesi 30. janúar 1940. Hann ólst upp í föðurgarði við almenn sveitastörf. Agnar var til sjós árin 1958-59. Hann hóf störf hjá Ingvari Helgasyni, heildverslun, 1960 sem fyrsti starfsmaður fyrirtækisins og síðar skrifstofustjóri. Þar var hann fram á vor 1969 og aftur 1971-72. Hinn 1. maí 1969 flutti Agnar í Hrísakot og hóf þar búskap, fyrst með foreldrum sínum, en tók við búi 1. febrúar 1975 og bjó þar síðan.

Agnar var kosinn varamaður í hreppsnefnd Þverárhrepps 1974, aðalmaður 1979 og oddviti hreppsnefndar sama ár. Hann var skipaður hreppstjóri Þverárhrepps frá 1984, var varamaður í sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu frá 1978 og þar til þær voru aflagðar 1988 og hefur setið sem aðalmaður í héraðsnefnd Vestur-Húnavatnssýslu frá þeim tíma. Sat í jarðanefnd Vestur-Húnavatnssýslu frá 1989 og sat auk þess í flestum nefndum í sveitarfélaginu. Agnar sat í stjórn KVH á Hvammstanga, fyrst sem varamaður en sem aðalmaður frá 1985, í stjórn Tónlistarskóla Vestur-Húnavatnssýslu til fjölda ára frá 1982. Var skólabílstjóri við barnaskólann til fjölda ára. Sat í fulltrúaráði Sjálfstæðisfélags Vestur-Húnvetninga og var virkur í flokksstarfinu, fór oft á landsfundi flokksins og naut þess mjög.

Hann tók virkan þátt í frjálsum íþróttum á árunum 1960-68 með KR í Reykjavík, var með fremstu langhlaupurum Íslands og var í landsliði Íslands á þeim tíma. Agnar skrifaði greinar í Tímaritið Húna og Húnaþing III og var í ritnefnd Húna í mörg ár. Hann var virkur í kvæðamannafélaginu Vatnsnesingi, frábær hagyrðingur og eru til ógrynni af ljóðum og vísum eftir hann við hin ýmsu tækifæri. Hann varði mjög miklum tíma í að skrá niður óútgefinn alþýðufróðleik og sagnir úr héraðinu.

Agnar kvæntist hinn 19.12. 1964 Hlíf Sigurðardóttur, f. 28.8. 1946 í Reykjavík.

Útför Agnars fer fram frá Hvammstangakirkju föstudaginn 1. mars kl. 14.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert