Kalt vatn inn á hafnarsvæðið á fimmtudaginn

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindavíkurbær í samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafa unnið að viðgerðum við stofnlögn vatnsveitu Grindavíkurbæjar og er þeirri vinnu að ljúka en lögnin varð fyrir tjóni í eldgosinu 14. janúar. 

Á vef Grindavíkur segir að stefnt sé að því að hleypa vatni um lögnina á fimmtudaginn. Fyrstu svæðin sem áætlað er að hleypa köldu vatni á séu niður við Grindavíkurhöfn, á svæði 1, 2 og 3 á meðfylgjandi mynd. 

Þá segir í tilkynningunni að áhleypingu sé fyrst skolað út úr lögnunum áður en þrýstingur sé byggður í dreifkerfinu. Því þurfa inntakslokar kaldavatnsins í fasteignum að vera lokaðir í upphafi.

Mikilvægt sé að hafa í huga að áreiðanleiki viðgerðar undir nýja hrauninu sé ekki þekktur og því gæti viðgerð brugðist og vatnið farið aftur af. 

Þá segir að það kunni að vera að dreifikerfi vatnsveitunnar innanbæjar leki eftir jarðhræringarnar. Skýrist á næstu dögum hvort viðgerð haldi, eftir að fullur þrýstingur er kominn á kerfið. Ákvörðun um það að setja kalt vatn á fleiri svæði og í hvaða röð verði svo tekin í framhaldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert