Laus úr haldi þrátt fyrir dóm fyrir gróft ofbeldi

Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms í málinu.
Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður sem dæmdur var í fjögurra ára fangelsi í síðustu viku fyrir tvær hrottalegar árásir gagnvart fyrrverandi kærustu sinni er laus úr varðhaldi. Þetta er niðurstaða Landsréttar sem felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms sem hafði dæmt hann í varðhald fram í ágúst með vísan í almannahagsmuni.

Dómur í máli mannsins féll 13. febrúar, en hefur ekki enn verið birtur. Tveimur dögum síðar féllst héraðsdómur á að framlengja gæsluvarðhald yfir manninum um hálft ár, eða meðan áfrýjunarfrestur er í gildi. Kærði maðurinn þá niðurstöðu beint til Landsréttar.

Gróf árás en ekki tilraun til manndráps

Landsréttur vísaði til þess að þó að maðurinn hafi verið sakfelldur fyrir grófar árásir á konuna, sem og fíkniefnalagabrot, þá hafi ekki verið fallist á að um hafi verið að ræða tilraun til manndráps.

Hægt er að halda mönnum í gæsluvarðhaldi til lengri tíma ef talið er að brot þeirra varði meira en 10 ára fangelsi, eða ef almannahagsmuni krefjist þess. Niðurstaða héraðsdóms var að sakfella manninn fyrir sérstaklega hættulegar líkamsrárásir, en ekki tilraun til manndráps. Er vísað til þess að héraðsdómur hafi komist að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafi ekki á verknaðarstundu haft ásetning til að bana konunni. Leiddi þetta til fjögurra ára dóms og þar með uppfyllti það ekki 10 ára viðmiðið.

Hvenær er um almannahagsmuni að ræða?

Landsréttur þurfti því að meta hvort almannahagsmunir krefðust þess að maðurinn sæti áfram inni meðan á áfrýjunarfresti stendur.

Var það niðurstaða Landsréttar, með vísan í dóm héraðsdóms og dómaframkvæmd, að ekki væru viðhlítandi rök fyrir því að nauðsynlegt væri að maðurinn sæti áfram í varðhaldi með tilliti til almannahagsmuna. Var úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi.

Áverkar sem gætu verið lífshættulegir

Maðurinn hefur sætt varðhaldi frá 4. september í fyrra, í kjölfar þess að hann var handtekinn fyrir að hafa ráðist gegn konunni í skóglendi í lok ágúst. Hafði maðurinn meðal annars sparkað ítrekað í konuna og þá sérstaklega í höfuð hennar. Í ákæru málsins er einnig greint frá því að maðurinn hafi reynt að kyrkja kon­una og haldið henni með kyrk­inga­taki þar sem hún var með höfuðið und­ir vatni í nær­liggj­andi læk. 

Telja má næst krafta­verki að gang­andi veg­far­andi hafi komi þar að, en við það hætti maður­inn bar­smíðum og hljóp á brott.

Kon­an var nef­beins- og and­lits­brot­in eft­ir árás­ina og með opið sár á höfði, marga mar­bletti á höfði, hálsi og víðar um lík­amann. Í lækn­is­vott­orði sem lög­regl­an studd­ist við frá sér­fræðilækni sagði jafn­framt að talið sé að áverk­ar kon­unn­ar hafi verið í sam­ræmið við á­verka­sög­una um kyrk­ing­ar og högg­in. Þá sagði jafn­framt að slík ák­verka­lýs­ing gæti hafa verið lífs­hættu­leg.

„Á ég ekki bara að svæfa þig“

Vitni sem átti leið eft­ir stíg í skóg­lend­inu varð var við árás­ina og sagðist hafa séð mann lemja konu og stappa ofan á höfði henn­ar. Lýsti vitnið því að hafa séð mann­inn beygja sig niður að kon­unni og byrja að kyrkja hana og sagt: „Á ég ekki bara að svæfa þig, klára þetta núna?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert