Myndskeið: Sjór flæddi yfir bílaplanið

Mikið brim hefur verið við Reynisfjöru í dag. Sjórinn hefur gengið á land með látum og var bílaplanið við fjöruna á tímabili á floti.

„Það er búið svakalega mikið brim í fjörunni og ferðamenn hafa þurft að standa á fjörukambinum því það hefur ekkert komist niður í fjöruna,“ segir Þórunn Edda Sveinsdóttir, íbúi í Vík, en dóttir hennar tók myndskeiðið sem fylgir fréttinni.

Hún segir að það hafi komið ein ansi hressileg gusa um miðjan dag þar sem flæddi bókstaflega yfir allt.

„Bílarnir á bílaplaninu við Svörtu fjöru voru nánast hálfir í kafi en sjórinn var upp á miðjum bílhurðum á sumum bílunum,“ segir Þórunn Edda, sem er frá Görðum þar sem myndskeiðið var tekið.

Hún segir að margir ferðamenn hafi verið á svæðinu í dag og sumir þeirra hafi verið ansi hræddir og hafi ekið bílunum í burtu með miklum látum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert