Vill breyta forsendum fjölskyldusameininga

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

„Það er alveg skýrt að markmiðið með þessari heildarsýn er að fækka hér umsóknum um vernd,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.

„Það er að ná niður kostnaði en á sama tíma að tryggja það að það fólk sem að hér sest að það samlagist íslensku samfélagi vel og farsællega,“ segir ráðherrann í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum. 

Rík­is­stjórn­in sam­mælt­ist í dag um aðgerðir í mál­efn­um um­sækj­enda um alþjóðlega vernd, flótta­fólks og inn­flytj­enda, og kveðst ráðherrann gríðarlega ánægður með áfangann. 

„Það verður ekki í boði lengur“

Spurð hvernig hún hyggist fækka umsóknum kveðst hún m.a. gera það með frumvarpi sem lagt verður fram á þingi í dag. Þar beri helst að nefna að hún leggi til að afnema 2. málsgrein 36. gr. laga um útlendinga sem varðar sérstök tengsl og sérstakar ástæður. 

„Þetta t.d. varðar þá einstaklinga sem hafa nú þegar vernd í öðru landi en koma hingað og fá þá efnismeðferð. Það verður ekki í boði lengur.“

Sömuleiðis boði hún breyttar forsendur í fjölskyldusameiningum og verði þær með því móti að einstaklingur sem sæki um fjölskyldusameiningu verði að vera búinn að vera hér á landi í að minnsta kosti tvö ár.

Þá mun hún leggja fram styttingu á leyfistímum. Eins og er fá einstaklingar, sem fá samþykkta alþjóðlega vernd, dvalarleyfi í fjögur ár en Guðrún leggur til að sá tími verði styttur í þrjú ár.

Þá verði viðbótarvernd stytt úr fjórum árum niður í tvö en mannúðarleyfi verði áfram eitt ár. 

Dómsmálaráðherra ásamt félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni að ríkisstjórnarfundi …
Dómsmálaráðherra ásamt félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni að ríkisstjórnarfundi loknum. mbl.is/Eyþór

Lagabreyting verði ekki afturvirk

Kveður frumvarpið einnig á um að nefndarmönnum í kærunefnd útlendingamála verði fækkað úr sjö í þrjá og að einstaklingarnir gegni fullu starfi í nefndinni. Er markmiðið að auka skilvirkni og að úrvinnsla umsókna verði hraðari. 

„Við erum að fá miklu fleiri umsóknir hér á Íslandi um alþjóðlega vernd heldur en á Norðurlöndunum og við erum með miklu hærra samþykktarhlutfall. Það helgast meðal annars af þessari 36. gr. laga um útlendinga sem ég legg til að afnema.“

„Þetta eru líklega umfangsmestu breytingar á útlendingalögum sem við höfum séð mjög lengi.“

Aðspurð segir hún lögin ekki virka afturvirkt verði þau samþykkt og hafi því ekki áhrif á þau sem hér þegar hafa fengið samþykkt dvalarleyfi. 

Lokuð búsetuúrræði til að tryggja að fólk fari 

Hún segir búsetuúrræði fyrir hælisleitendur eina aðgerðaáætlun í heildarstefnu ríkisstjórnarinnar. Frumvarp hennar um slík úrræði sé nú í samráðsgátt en hún vænti þess að leggja það fram á þingi í mars, en áður verður settur á fót spretthópur sem mun vinna greiningu á kostum og göllum ólíkra leiða hvað þetta varðar.

„Þannig að þeir einstaklingar sem hafa fengið endanlega synjun og eiga að fara frá landinu að það sé tryggt að þeir fari.“

Þá segir kveðst ráðherrann einnig telja mikilvægt að komið verði á sérstökum móttökubúðum, en slíkt úrræði er þó ekki partur af frumvarpi hennar um lokuð búsetuúrræði.

„Ég tel það mjög mikilvægt að við séum með móttökubúðir nálægt flugvellinum þar sem einstaklingar dvelja, fyrstu sólarhringana í öruggu húsnæði á meðan það er verið að meta forsendur og umsóknir þannig að fólk fari ekki beint inn í íslenskt samfélag.“

Þessi frétt hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert