Andlát: Hildur Hermóðsdóttir

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hild­ur Hermóðsdótt­ir, kenn­ari og bóka­út­gef­andi, lést á Hrafn­istu Boðaþingi sunnu­dag­inn 18. fe­brú­ar, 73 ára að aldri.

Hild­ur fædd­ist 25. júlí 1950 í Árnesi í Aðal­dal og ólst þar upp. For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Jó­hanna Álf­heiður Stein­gríms­dótt­ir og Hermóður Guðmunds­son en þau voru bænd­ur og höfðu með hönd­um veiðiheim­il­is­rekst­ur í Árnesi.

Hild­ur stundaði nám við Héraðsskól­ann á Laug­um og síðan Kenn­ara­skóla Íslands þar sem hún út­skrifaðist 1972. Vorið 1980 lauk hún BA-prófi í bók­mennta­fræði frá Há­skóla Íslands með sögu og ís­lensku sem auka­grein­ar.

Hild­ur starfaði sem grunn­skóla­kenn­ari frá ár­inu 1972 auk dag­skrár­gerðar við RÚV og um­fjöll­un­ar um bæk­ur í dag­blöðum. Hún kenndi ís­lensku og bók­mennt­ir við Fóst­ur­skóla Íslands árin 1982-1986 en starfaði eft­ir það sem rit­stjóri barna­bóka hjá Bóka­út­gáfu Máls og menn­ing­ar frá 1986 til árs­ins 2000 að hún stofnaði Bóka­út­gáf­una Sölku ásamt Þóru Sig­ríði Ing­ólfs­dótt­ur. Hild­ur tók síðan al­farið við Sölku árið 2002 og rak um­fangs­mikla út­gáfu til hausts­ins 2015 að hún seldi fyr­ir­tækið og stofnaði Texta­smiðjuna.

Hild­ur sat í stjórn Máls og menn­ing­ar þegar hún starfaði þar, sat einnig mörg ár í stjórn Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­enda, nokk­ur ár í stjórn IBBÝ-sam­tak­anna og nokk­ur ár í stjórn Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Íslands. Um ára­bil sat hún í stjórn Þing­ey­inga­fé­lags­ins í Reykja­vík og var þar um skeið gjald­keri og síðan formaður. Hún var einnig stofn­fé­lagi og varamaður í stjórn fé­lags­ins Vin­ir ís­lenskr­ar nátt­úru.

Árið 2022 sendi Hild­ur frá sér bók­ina Ástin á Laxá, Hermóður í Árnesi og átök­in miklu en þar var sögð sag­an af því þegar Þing­ey­ing­ar tóku til sinna ráða til vernd­ar nátt­úr­unni og sprengdu stíflu í Laxá með dína­míti í eigu virkj­un­ar­inn­ar árið 1970.

Eig­inmaður Hild­ar var Jafet Sig­urður Ólafs­son fram­kvæmda­stjóri. Hann lést í nóv­em­ber sl. Börn Jafets og Hild­ar eru Jó­hanna Sig­ur­borg, Ari Hermóður og Sig­ríður Þóra. Barna­börn­in eru fimm.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert