Velta jókst töluvert í flestum atvinnugreinum árið 2023 samanborið við fyrra ár þar sem ferðaþjónustan varð um tíma stærsta atvinnugrein landsins og óx um yfir 20% ásamt fasteignaviðskiptum og byggingastarfsemi.
Töluvert hægði þó á vexti ferðaþjónustunnar síðustu tvo mánuði ársins, að því er segir í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.
Almennt hægði á vexti veltu í nóvember til desember 2023 samanborið við sömu mánuði árið 2022.
Þannig minnkaði velta í helmingi atvinnugreina og jókst umfram verðbólgu (7,9%) í einungis fjórðungi þeirra. Mesta aukningin var í fasteignaviðskiptum, sölu á vélknúnum ökutækjum og byggingarstarfsemi.
Mestur var samdráttur í framleiðslu málma, veitustarfsemi og greinum í tækni- og hugverkaiðnaði. Þá var velta í ferðaþjónustu óbreytt á milli ára eftir mikinn og samfelldan vöxt frá miðju ári 2021.
Velta í fasteignaviðskiptum hélt áfram að aukast eða um alls 21% og reyndist 27 milljarðar króna á tímabilinu. Meginþorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til aukinna leigutekna af atvinnuhúsnæði, bæði vegna hækkunar leigu og nýrra tekjulinda. Þá var einnig markverður vöxtur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þar sem velta jókst um 11% á milli ára en sú hækkun stafaði einkum af 13% vexti í sérhæfðri byggingarstarfsemi (t.d. raf- og pípulagnir, múrhúðun, o.fl.). Minni aukning var í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna eða 8%.
Velta í ferðaþjónustu var nær óbreytt miðað við sama tíma árið 2022 eða rúmlega 121 milljarður króna. Vöxturinn (0,1%) var því langt undir verðbólgu ársins. Velta jókst lítillega í flugi eða um 3% en 6% í rekstri gististaða og 8% í veitingasölu og -þjónustu.
Aftur á móti dróst hún saman um 14% í bílaleigu, 10% í flutningi á landi og sjó og 2% hjá ferðaskrifstofum.