Með nokkur þúsund lítra af vatni

Atli Freyr Atlason og Kristín Björk Ómarsdóttir standa vaktina hjá …
Atli Freyr Atlason og Kristín Björk Ómarsdóttir standa vaktina hjá slökkviliðinu í Keflavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er svona eitt og annað sem kemur upp á, redda vatni og annað,“ segir Atli Freyr Atlason, slökkviliðsmaður í Grindavík, og Kristín Björk Ómarsdóttir samstarfskona hans tekur undir, „við erum bara að sinna okkar skyldum sem viðbragðsaðilar í Grindavík“, tekur hún við af Atla Frey.

Vatnsútvegunin er fyrir björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila en auk þess kæla slökkviliðsmenn í Grindavík nýja hraunið. Segir Atli þau Kristínu ekki vera með öllu ókunnug nýju hrauni enda séu þau Vestmannaeyingar og spyr blaðamaður þá út í möguleika til brauðbaksturs í heitu hrauninu í Grindavík svo sem gert hafi verið í Eyjum á sínum tíma, fyrir hálfri öld.

Slökkviliðið í Grindavík ber hvorki kvíðboga fyrir vatnsskorti né því …
Slökkviliðið í Grindavík ber hvorki kvíðboga fyrir vatnsskorti né því að geta ekki brugðist við eldsvoða þótt ástand innviða bæjarins hafi verið betra en einmitt nú. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstoð frá Keflavík 20 mínútur í burtu

„Það eru nú konur hér sem hafa farið í hverina og seitt rúgbrauð, til dæmis Gunnuhver, þannig að það er möguleiki,“ segir Kristín.

Hvað ef eldsvoði kæmi upp í bænum, væri slökkviliðið í góðu standi til að sinna slíku miðað við ástand innviða?

„Við erum náttúrulega með nokkur þúsund lítra af vatni á tankbílnum og dælubílnum okkar svo til að byrja með ættum við að höndla aðstæður og svo eru nú bara tuttugu mínútur í aðstoð frá Keflavík,“ svarar Atli og Kristín bendir á að eins sé skammt til sjávar í Grindavík og því hægt um vatnsaðföng lægi mikið við.

Atli telur vatnsleysi ekki áhyggjuefni og segir slökkviliðið á svæðinu vel sett komi til bruna og litla ástæðu til að hafa áhyggjur af að það reynist ekki starfi sínu vaxið þrátt fyrir fjölda annarra áskorana í kjölfar náttúruhamfaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert