Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.
Í frumvarpinu segir að markmið laganna sé að gera stjórnvöldum kleift að koma í veg fyrir að viðskiptaráðstafanir sem tryggja erlendum aðilum eignaraðild, yfirráð eða veruleg áhrif yfir rekstraraðilum eða fasteignum hér á landi gangi gegn þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.
Með frumvarpinu eru lögð til heildarlög um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Hugtakið rýni vísar í frumvarpinu til faglegrar greiningar og mats á því hvort viðskiptaráðstafanir, sem tryggja erlendum aðilum eignaraðild, veruleg áhrif eða yfirráð yfir atvinnufyrirtækjum eða fasteignaréttindum hér á landi, ógni þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.
Tillögur frumvarpsins standa í samhengi við alþjóðlega þróun á þessu löggjafarsviði, en flest ríki á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hafa sett löggjöf sem er sambærileg þeirri sem lögð er til með frumvarpinu.
Í frumvarpinu segir meðal annars að ein af meginskyldum ríkisvaldsins sé að tryggja öryggi þegnanna og samfélagsins, þ.e. þjóðaröryggi. Hugtakið þjóðaröryggi er heildstætt hugtak sem tekur til borgaralegs og hernaðarlegs öryggis og hnattrænna, samfélagslegra og mannlegra áhættuþátta, varðandi sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.
Fram kemur í frumvarpi forsætisráðherra að þjóðaröryggisstefnan feli í sér ellefu áherslur sem hafa jafnt vægi. Þær lúta m.a. að fæðu og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi, netöryggi, fjármála- og efnahagsöryggi og öryggi gagnvart hryðjuverkum og skipulagðri brotastarfsemi.
Þær lúta enn fremur að varnarsamstarfi við önnur ríki í gegnum Atlantshafsbandalagið og varnarsamningi við Bandaríkin og að í landinu séu varnarmannvirki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
Þá er í stefnunni lögð áhersla á þætti á borð við mannréttindi, jafnrétti kynjanna, afvopnun og friðlýsingu Íslands og íslenskrar landhelgi fyrir kjarnavopnum.
Í þjóðaröryggisstefnunni er m.a. lögð áhersla á að vernda virkni mikilvægra innviða og styrkja áfallaþol samfélagsins gagnvart hvers kyns ógn við líf og heilsu fólks, umhverfi, eignir og innviði.
Í stefnunni er í þessum efnum m.a. vísað til ógnar sem tengist náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi, farsóttum, hryðjuverkum og skipulagðri brotastarfsemi, svo og ógn við stjórnskipun, stjórnkerfi og fjarskipti, orkuöryggi og fjármála- og efnahagsöryggi.
Í frumvarpinu kemur fram að fast sæti í þjóðaröryggisráði eigi forsætisráðherra, sem er formaður ráðsins, ráðherra sem fari með utanríkis- og varnarmál og ráðherra sem fari með almannavarnir, auk ráðuneytisstjóra viðkomandi ráðuneyta. Að auki eiga fast sæti í ráðinu ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar og fulltrúi Landsbjargar, auk tveggja alþingismanna.