Sigurður Ágúst nýr formaður FEB

Sigurður Ágúst Sigurðsson.
Sigurður Ágúst Sigurðsson. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Ágúst Sigurðsson var kosinn nýr formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni á aðalfundi félagsins í dag. Sigurður er fyrrverandi forstjóri DAS.

Fjórir sóttust eftir formannsstólnum og hlaut Sigurður Ágúst 215 atkvæði eða rúmlega 60% atkvæða. Sigurbjörg Gísladóttir hlaut 130 atkvæði, Borgþór Kjærnested 6 og Sverrir Örn Kaaber 3. Ógild atkvæði voru tvö en samtals kusu 356 í formannskjörinu. Fráfarandi formaður, Ingibjörg Sverrisdóttir, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Þakklátur fyrir mikinn stuðning

„Ég þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem framboð mitt hlaut á fundinum í dag,“ segir Sigurður og bætir við: „Eins og ég benti á í ræðu minni í dag að þá eru 16 þúsund félagsmenn í félaginu sem eru rúmlega þriðjungur allra eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fjöldi félagsmanna minnir á samtakamáttinn sem við eigum hiklaust að beita í þeirri baráttu sem fram undan er og það munum við gera fyrir bættum lífsgæðum eldra fólks.“

Sigurður Ágúst, sem er fæddur árið 1953, lét nýverið af störfum sem forstjóri Happdrættis DAS, en hann gegndi því starfi  í 33 ár og sat stjórnarfundi Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins. Áður starfaði hann sem aðalbókari Hrafnistuheimilanna og sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði Reykjavíkur (nú SHS).

Þá situr Sigurður í stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða en hann hefur enn fremur víðtæka reynslu af stjórnar- og nefndarstörfum. Jafnframt hefur hann setið í fjölda nefnda á vegum dómsmálaráðuneytisins vegna starfa sinna fyrir happdrætti DAS.

Á fundinum var einnig kosið í stjórn og varastjórn, samtals sex manns. Í stjórnarkosningunni hlaut Guðrún Ósk Jakobsdóttir 290 atkvæði, Elinóra Inga Sigurðardóttir 284 og Kristinn Eiríksson hlaut 276 atkvæði.

Í kosningu í varastjórn hlaut Ragnar Árnason 229 atkvæði, Bessí Jóhannsdóttir 215 og Jón Magnússon 197.

Samtals kusu 349 í stjórnarkjörinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert