Atvinnurekendur í Grindavík voru í óða önn að standsetja fyrirtæki sín er blaðamaður og ljósmyndari litu við í bænum í gær. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum heimilaði íbúum og fyrirtækjum að dvelja og starfa í bænum allan sólarhringinn frá og með gærdeginum.
„Ef ég fæ vatn á húsið þá opna ég á morgun,“ segir Vilhjálmur Jóhann Lárusson, eigandi sjómannastofunnar Vör í Grindavík, spurður hvenær hann opni veitingastaðinn sinn á ný. Þá hafði slökkviliðið nýlega komið við hjá honum og dælt vatni á fötur svo þrif gætu hafist á staðnum.
Búist er við því að köldu vatni verði hleypt á Grindavík aftur á ný í dag.
„Það er enginn að koma og gista í bænum en það er fullt af atvinnumönnum og verktökum sem eru að vinna í bænum.“
Hann geri ráð fyrir að þeir geri sér ferð á veitingastaðinn en að strax sé búið að hafa samband við hann.
„Þú ert hérna í nokkra daga og svo ferðu út og kemst ekki inn. Þá eyðileggst allt í kælinum og þá hendir maður því og heldur áfram,“ svarar Vilhjálmur spurður hvernig reksturinn hafi gengið síðustu mánuði.
„Þetta er bara svona og við breytum því ekkert, við lifum með þessu,“ segir hann en nefnir að veitingastaðurinn hafi ekki hlotið mikið tjón.
„Hún er erfið,“ segir Vilhjálmur spurður hvernig það er að þurfa að taka ákvörðun um að yfirgefa Grindavík en hann er fæddur og uppalinn í bænum.
„Þar sem að maður er með börn þá er maður ekkert að koma hingað á næstunni.“ Hann gæti alveg hugsað sér að fara heim og gista. „Ég á eftir að gera það.“
Vilhjálmur segir erfitt að áætla birgðarstöðuna á veitingastaðnum. „Maður reynir að vera hógvær. Þú veist ekkert hvort það komi hundrað manns eða tvö hundruð manns í hádeginu, þetta er svolítið erfitt,“ segir Vilhjálmur.
Hann hafi þó tekið áhættu og pantað mikið.
„Ef það kemur rýming þá hendir maður því bara út í bíl,“ segir hann kíminn að lokum.