Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um skák og í því er kynnt áform um að störf og laun stórmeistara í skák á grundvelli laga um launasjóð stórmeistara verði lögð niður.
Í fyrirhugaðri lagabreytingu er markmiðið að styrkja afreksfólk í skák og efnilegt skákfólk sem stefnir að alþjóðlegum árangri.
Lagt er til að stórmeistarar sem eru nú á launum njóti forgangs til styrkja úr afrekssjóði í skák í fyrstu úthlutun árið 2025 en frá og með 2026 verði umsóknir þeirra metnar á sama hátt og aðrar umsóknir.
Ár hvert verður auglýst eftir umsóknum um styrki úr afrekssjóði í skák í samræmi við þriggja ára stefnu og áherslur úthlutunar. Styrkjum er úthlutað einu sinni á ári til skilgreindra verkefna og taka mið af væntum árangri umsækjanda það árið.
Framlög ríkisins til skákar munu samkvæmt frumvarpinu renna annars vegar í afrekssjóð í skák og hins vegar til skákhreyfingarinnar fyrir skákþjálfun og fræðslu með eflingu skákiðkunar hér á landi fyrir augum. Afrekssjóðurinn er á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra og starfar undir stjórn sem annast úthlutun fjármagns.