Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu til að sæta fangelsi í fimm mánuði fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa 21. desember síðastliðinn komið með kókaín og ketamín til landsins ætluðu til söludreifingar hér á landi.
Í dómi sem féll 25. janúar á þessu ári en var birtur i dag kemur fram að konan hafi flogið til landsins með 124,04 grömm af kókaíni og 231,80 grömm af ketamíni.
Konan, sem er af erlendu bergi brotin, játað brot sitt án undandráttar við þingfestingu málsins. Þá fór hún fram á vægustu refsingu sem lög leyfa.
Í dóminum segir að samkvæmt rannsóknargögnum málsins verði ekki séð að konan hafi verið eigandi efnanna, heldur hafi hún samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.
Dómurinn tekur tillit til ofangreindra þátta en segir: „Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að ákærða flutti sterkt kókaín og ketamín til landsins ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni og að aðkoma hennar er ómissandi liður í því ferli.“
Konunni var gert að sæta fangelsi í fimm mánuði, henni var gert að sæta upptöku á kókaíninu og ketamíninu og gert að greiða 994.440 krónur í þóknun til verjanda síns.