Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, hafa tekið „kúvendingu“ í hælisleitendamálum og að næstu skref verði prófsteinn á formann flokksins þar sem að breytingarnar sem felast í frumvarpinu hafi áður verið lagðar fyrir þingið.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Hildar á Viljanum.
Frumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra er varðar útlendingalög verður tekið fyrir á þingi í 1. umræðu í dag.
„Eftir margra mánaða þögn um eitt erfiðasta mál samtímans, rauf formaður Samfylkingarinnar þögn sína um hælisleitendamál á dögunum og samstundis fór allt á annan endann í flokki hennar, enda um algjör kúvendingu að ræða frá því sem við þingmenn annarra flokka höfum heyra af vörum samfylkingarfólks undanfarin ár,“ segir Hildur.
Hildur bendir þá á að nú sé tími fyrir Samfylkinguna til þess að máta sína sýn á útlendingamálin þegar Alþingi tekur fyrir frumvarp dómsmálaráðherra.
Hildu segir breytingarnar sem felast í frumvarpinu ekki vera nýjar af nálini, en að skyndilega hafi liðkast fyrir málinu með „þessum skyndilega liðsauka úr herbúðum Samfylkingarinnar“. Ýjar Hildur að því að Kristrún geti varla talað fyrir stefnu sem sé önnur en þingflokkur hennar á þingi fylgi.
„Fróðlegt verður þess vegna að fylgjast með því hvort formaðurinn fær fleiri flokksmenn en forvera sína á formannsstólnum til lags við sig. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur hingað til ekki bara tekið fyrir þær nauðsynlegu breytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað lagt til á málaflokknum, heldur hafnað þeim með mjög afgerandi hætti og brigslað stuðningsmönnum breytinganna um að verða helst minnst af þingferlinum fyrir dusilmennsku og vondan hug,“ segir hún.
Hildur segir enn fremur að breytingarnar í frumvarpinu séu efnislega þær sömu og hafi áður verið lagðar fyrir þingið og þess vegna verði það prófsteinn á formann Samfylkingarinnar þegar tekist verður á um frumvarpið.
„Stóra prófið er því framundan og undirbúningur stendur því líklega sem hæst við Hallveigarstíg. Ráð gæti verið að heyra í enn einum forveranum á formannsstóli, en sú var víst sérfræðingur í að smala köttum. Það gæti komið sér vel nú.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/02/19/logi_sammala_kristrunu_um_utlendingamalin/