„Sá versti sem við höfum upplifað“

Árekstur.is að störfum.
Árekstur.is að störfum. Ljósmynd/Kristján Kristjánsson.

Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri hjá Árekstur.is, segir að febrúar sé annasamasti mánuður frá stofnun fyrirtækisins. Hann segir veðuraðstæður hafa verið óvenju slæmar og að starfsmenn fyrirtækisins séu að „drukkna“ í verkefnum. 

„Vanalega kemur svona hvellur þar sem mikið er að gera hjá okkur í tvo til þrjá daga en núna kom ástand sem varði í tvær til þrjár vikur sem maður hefur aldrei nokkurn tímann séð áður,“ segir Kristján.

Árekstur.is aðstoðar fólk sem hefur lent í árekstri við að fylla t.a.m. út tryggingarform rétt og fleira.

Óvenju slæmur vetur 

Í samtali við mbl.is 25. janúar sagði Kristján að 30 árekstrar biðu fyrirtækisins þegar skyndileg snjóþyngsl og hálka mynduðust. Hann segir að í raun hafi álaginu lítið lint frá því í lok janúar. 

Óvenju margir árekstarstar hafa verið.
Óvenju margir árekstarstar hafa verið. Ljósmynd/Andri Þór

„Þetta er búið að vera óvenju slæmur vetur og sá versti sem við höfum upplifað," segir Kristján en fyrirtækið var stofnað árið 2007. „Tölurnar sýna það,“ bætir Kristján við en fyrirtækið heldur utan um fjölda árekstra sem það kemur að.

Hann telur engu sérstöku um að kenna. Stundum skapist óheppilegar aðstæður í lengri tíma og lítið hægt að gera við því.

„Veðuraðstæður eru þannig að óvenju mikil hálka hefur verið í vetur. Það kom hvellur þarna 25.janúar og þetta er búið að vera meira og minna ástand sem hefur varað síðan þá,“ segir Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert