„Þá mun það kalla á fórnir“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir fjár­málaráðherra seg­ir að til að ná ár­angri við að ná verðbólgu niður þurfi að færa fórn­ir. Hún seg­ist vera þeirr­ar skoðunar að lang­mestu áhersl­una eigi að leggja á upp­stokk­un rík­is­rekst­urs og minnka út­gjöld. Þá vill Þór­dís fara í heild­ar­end­ur­skoðun á hvernig fjár­mögn­un nátt­úru­ham­fara­trygg­inga sé hér á landi.

Þetta kom fram í máli Þór­dís­ar í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma á þing­inu í dag. Var hún til svara við fyr­ir­spurn Þór­hild­ar Sunnu Ævars­dótt­ur pírata sem spurði um fjár­mögn­un á kaup­um rík­is­ins á íbúðar­hús­næði í Grinda­vík. Vísaði Þór­hild­ur til frum­varps­ins og að þar kæmi fram að um veru­leg­ar til­færsl­ur verðmæta væri að ræða úr op­in­ber­um sjóðum til eig­enda hús­næðis­ins.

„Í þessu felst að aðhalds­stig op­in­berra fjár­mála verður slak­ara en ella. Í stað þess að hafa áhrif til lækk­un­ar verðbólgu og vaxta, líkt og gert var ráð fyr­ir í samþykkt­um fjár­lög­um 2024, verða áhrif rík­is­fjár­mál­anna á þess­ar stærðir allt að því hlut­laus á ár­inu 2024 nema ráðstöf­un­in verði fjár­mögnuð með hækk­un skatta eða lækk­un út­gjalda,“ las Þór­hild­ur upp úr grein­ar­gerð með frum­varp­inu.

Spurði hún Þór­dísi nán­ar út í fjár­mögn­un aðgerðanna, stefnt væri að því að það væri gert með lán­töku, og af hverju ekki hefði verið horft til sér­tækr­ar skatt­heimtu eins og hækk­un­ar fjár­magn­s­tekju­skatts, banka­skatts eða hval­reka­skatts.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Áhersla á upp­stokk­un og minni út­gjöld

Sagði Þór­dís að horfa þyrfti í þessu sam­bandi til aðkomu rík­is­ins að lang­tíma­kjara­samn­ing­um og fleiru. All­ir væru sam­mála um að ná þyrfti ár­angri til að rík­is­fjár­mál­in styddu við verðbólgu­mark­mið um að ná verðbólgu niður. „Þá mun það kalla á fórn­ir,“ sagði Þór­dís, en bætti við að hún væri meðvituð um að mis­mun­andi skoðanir væru á því hvaða fórn­ir ætti að færa, hvort sem það væri í formi skatt­heimtu, minni út­gjalda eða með að losa um aðrar eign­ir.

Sagðist Þór­dís sjálf vilja leggja lang­mesta áherslu á það að stokka upp rík­is­rekst­ur­inn og minnka út­gjöld.

Gæti út­greiðsla komið niður á rekstr­ar­hæfi sjóðsins?

Spurði Þór­hild­ur nán­ar út í ákvörðun­ina að velja lán­töku sem og að taka fjár­muni inn­an úr Nátt­úru­ham­fara­trygg­inga­sjóði. Sagði hún að gæta þyrfti þess að það kæmi ekki niður á rekstr­ar­hæfi og gjaldþoli stofn­un­ar­inn­ar. Spurði hún hvernig hægt væri að taka alla­vega 10 millj­arða út úr sjóðnum án þess að það kæmi niður á gjaldþoli hans.

„Erum við ekki að stefna framtíðarviðnámsþoli okk­ar gagn­vart nátt­úru­ham­förum í tví­sýnu með því að koma svona fram við þenn­an sjóð sem er ekki ætlað að bæta annað en það sem verður fyr­ir tjóni út af nátt­úru­ham­förum?“ spurði Þór­hild­ur að lok­um.

Þór­dís sagði að kaup­in á hús­næði í Grinda­vík væru skamm­tíma­áfall og því væri í henn­ar huga rétt að dreifa kostnaðinum yfir tíma og átti þar við lán­töku vegna kostnaðar­ins sem fell­ur til.

Varðandi Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­ar sagði Þór­dís að það að nýta sjóðinn að hluta til að fjár­magna aðgerðina þá liggi fyr­ir að það hafi nú þegar orðið tjón sem ekki hafi verið búið að meta og mögu­lega verði frek­ar tjón sem sjóður­inn muni þurfa að standa und­ir. Vísaði hún einnig til þess að horfa þyrfti á aðkomu end­ur­tryggj­enda sem muni bæta tjónið að hluta til sjóðsins.  

Gat sem kall­ar á heild­ar­end­ur­skoðun

Þór­dís opnaði svo á þá hug­mynd að fara í heild­ar­end­ur­skoðun á fjár­mögn­un Nátt­úru­ham­fara­trygg­inga og sagði gat vera á hvað sé bætt sem nú komi í ljós.

„Síðan tel ég að þetta áfall og það verk­efni sem við stönd­um frammi fyr­ir kalli á heild­ar­end­ur­skoðun á því hvernig við fjár­mögn­um nátt­úru­ham­far­ir vegna þess að við erum með of­an­flóðasjóð og Nátt­úru­ham­fara­trygg­ingu Íslands og það er þarna gat vegna þess tjóns sem við erum að verða fyr­ir núna og við þurf­um ein­fald­lega að end­ur­skoða það heilt yfir,“ sagði Þór­dís.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert