„Þetta viðhorf verður að breytast“

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir viðhorf Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, verða …
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir viðhorf Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, verða að breytast. AFP/Samsett mynd

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra segir viðhorf Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, verða að breytast þegar komi að tveggja ríkja lausninni svokölluðu. Lét hann þessi ummæli falla á Alþingi í dag undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir.

Bjarni var spurður út í nýleg ummæli Netanjahú þar sem hann hafnaði hugmyndum um sjálfstæði Palestínu sem byggt væri á tveggja ríkja lausninni, en Bandaríkin hafa meðal annars unnið að slíkri útfærslu í tengslum við friðarumleitanir.

Í gær greiddi svo ísraelska þingið atkvæði þar sem tekið var undir höfnun Netanjahú um einhliða viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu.

„Varðandi ummæli forsætisráðherra Ísraels þá get ég notað þetta tækifæri til þess að segja einfaldlega þetta: Þetta viðhorf verður að breytast. Þetta leiðir okkur ekki neitt. Tveggja ríkja lausnin er haldreipi okkar til þess að skapa varanlegan frið,“ sagði Bjarni.

Tók hann einnig fram að það sama verði að gerast hjá forystu Palestínumanna og að viðhorf hjá Hamas verði að breytast. Hann sagðist ekki sjá neina aðra framtíðarlausn en tveggja ríkja lausnina. „Forystumenn þar hafa haft það að sjálfstæðu stefnumiði sínu að útrýma Ísraelsríki. Þetta verður allt saman að breytast. Við vonumst auðvitað til þess að friðarumleitanir sem nú standa yfir geti borið með sér einhverja von um langtímalausn og ég sé enga aðra leið í því en tveggja ríkja lausn.“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert