Almannavarnir ítreka að gefnu tilefni að einungis verður hleypt á köldu vatni um hafnarsvæðið í Grindavík í dag.
Fyrstu svæðin sem áætlað er að hleypa köldu vatni á eru við Grindavíkurhöfn. Um er að ræða svæði 1, 2 og 3 eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni.
Tímaáætlun áhleypingar er eftirfarandi:
Svæði 1 kl. 10.00 (grænt svæði á korti)
Svæði 2 kl. 13.00 (gult svæði á korti)
Svæði 3 kl. 14.00 (rautt svæði á korti)
Við áhleypingu er fyrst skolað út úr lögnunum áður en þrýstingur er byggður í dreifkerfinu. Inntakslokar kaldavatnsins í fasteignum þurfa því að vera lokaðir í upphafi.
„Mikilvægt er að hafa í huga að áreiðanleiki viðgerðar undir nýja hrauninu er ekki þekktur og því gæti viðgerð brugðist og vatnið farið aftur af. Þá kann að vera að dreifikerfi vatnsveitunnar innanbæjar leki eftir jarðhræringarnar,” segir í tilkynningunni.
Þar kemur fram að á næstu dögum muni skýrast hvort viðgerð haldi, þ.e. eftir að fullur þrýstingur er kominn á kerfið.
Ákvörðun um að setja kalt vatn á fleiri svæði og í hvaða röð verður tekin á næstu dögum.