Verðum að vara við þessu

Benedikt Ófeigur segir að atburðarrásin nú líti mjög svipað út …
Benedikt Ófeigur segir að atburðarrásin nú líti mjög svipað út og fyrir gosið 8. febrúar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að ýja að því að það geti dregið til tíðinda á Reykjanesskaganum í næstu viku. Það getur líka orðið fyrr eða eitthvað seinna.“

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni í dag segir að haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða og nú muni magn kviku ná þeim þröskuldi í næstu viku sem talið er að þurfi til að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða jafnvel eldgosi.

Atburðarrásin svipuð og fyrir síðasta gos

„Þetta byggir á að miðað við núverandi landris við Svartsengi nær þetta svipuðu rúmmáli og fór úr Svartsengi 8. febrúar. Við verðum því að vara við því að eitthvað geti farið af stað strax í næstu viku. Það eru mestar líkur á því en svo geta orðið einhver frávik,“ segir Benedikt.

Hann segir að atburðarásin nú líti mjög svipað út og fyrir gosið 8. febrúar, sem var það sjötta í röðinni á Reykjanesskaganum á tæpum þremur árum.

„Kvikumagnið er að nálgast sex milljónir rúmmetra og verður búið að ná miðað við áframhaldandi söfnun 8 milljónum rúmmetrum á þriðjudaginn sem eru neðri mörkin á þessum 8 til 13 milljónum rúmmetrum sem við mátum að hafi farið úr kerfinu síðast,“ segir Benedikt.

Svipuðum slóðum og síðast

Benedikt telur langlíklegast að komi til eldgoss þá verði það á svipum slóðum og síðasta gos.

„Líklegasti gosstaðurinn er við Sýlingafell og að það byrji þar en svo getur það farið eftir ganginum og innskot geta komið upp sunnar eða norðar eins og það gerði í janúar. Það er ómögulegt að segja til um það,“ segir Benedikt.

Vísindamenn á Veðurstofunni mátu það svo að ekki sé talin ástæða til að auka hættustig á svæðinu að svo stöddu. „Við munum endurmeta stöðuna á mánudaginn,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert