Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp um að koma á fót rannsóknarnefnd almannavarna að nýju, en slík rannsóknarnefnd hefði það hlutverk að starfa sjálfstætt og rannsaka að loknu hættuástandi þær viðbragðsáætlanir sem stuðst var við og viðbrögð viðbragðsaðila.
Í dag rannsakar almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eigin aðgerðir og þykir flutningsmönnum frumvarpsins það óæskilegt.
Nefnd sem þessi hefur áður verið starfandi og var sett á fót með lögum árið 2008, en lögð niður með lögum árið 2022. Hafði nefndin aðeins einu sinni verið virkjuð á því tímabili, en það var vegna óveðurs sem skall á í desember 2019 og orsakaði meðal annars langvinnt rafmagnsleysi á Norðurlandi.
Frumvarpið er þverpólitískt, en þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum, Flokki fólksins, Viðreisn, Framsóknarflokki, Pírötum og Samfylkingu eru einnig flutningsmenn.
Í frumvarpinu, sem lagt var fram á Alþingi í gær, er gert ráð fyrir að þriggja manna nefnd verið kosin til setu í nefndinni, en hún á að skila ráðherra, ríkislögreglustjóra og allsherjar- og menntamálanefnd niðurstöðum sínum. Þá skal birta skýrslur nefndarinnar opinberlega.
Gert er ráð fyrir að nefndin hafi óhindraðan aðgang að gögnum viðbragðsaðila almannavarna.
Í síðustu viku gagnrýndi Elías Pétursson, bróðir Lúðvíks Péturssonar, sem hvarf ofan í sprungu í Grindavík, í viðtali við Heimildina að nefndin hefði verið lögð niður. Bryndís sagði við Rúv í gær að það væri þó ekki ástæða frumvarpsins, heldur heimsfaraldur og langvarandi eldsumbrot á Reykjanesskaga.
„Á undanförnum árum hefur hlutverk, verksvið og ábyrgð almannavarna í íslensku samfélagi orðið æ veigameiri í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 og jarðhræringa á Reykjanesskaga. Í ljósi þess óvissutímabils sem nú virðist vera hafið á skaganum og vísindamenn spá að geti jafnvel varað í áratugi eða árhundruð er ljóst að almannavarnir munu áfram skipta þjóðina verulegu máli í náinni framtíð enda kallar langvarandi almannavarnaástand á öflugar almannavarnir,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
„Flutningsmönnum frumvarpsins þykir það skjóta skökku við að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra rannsaki eigin aðgerðir líkt og tilgangur eldri laga var að koma í veg fyrir. Því leggja flutningsmenn frumvarpsins til að rannsóknarnefnd almannavarna verði endurvakin,“ segir þar jafnframt.