„Ákvörðun VR kemur á óvart“

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru vonbrigði að ná ekki að semja við breiðfylkinguna í óbreyttri mynd en verkefnið fer ekki frá okkur, við stefnum ennþá á að gera langtíma kjarasamninga sem hafa það að markmiði að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði fyrir vaxtalækkunum.“

Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hennar um ákvörðun VR að slíta sig frá breiðfylkingu stéttarfélaganna í samningaviðræðum við SA um nýjan kjarasamning.

„Ákvörðun VR kemur á óvart þar sem búið var að samþykkja launaliðinn og forsenduákvæðin þar sem ákveðið hafði verið að horfa til verðbólgumarkmiða árin 2025 og 2026,“ segir Sigríður Margrét.

Miður að VR velji að ganga frá tímamótasamningum

Hún segir það miður að VR velji að ganga frá tímamótasamningum sem er ætlað að byggja undir efnahagslegan stöðugleika. 

„Verkefnið þjónar heildarhagsmunum þjóðarinnar.  Við hjá Samtökum atvinnulífsins og sá hluti verkalýðshreyfingarinnar sem enn situr við samningsborðið munum áfram standa vörð um þá hagsmuni.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert