Dómur meira en tvöfaldaður í nauðgunarmáli

Landsréttur féllst á það með ákæruvaldinu að brotið ætti heima …
Landsréttur féllst á það með ákæruvaldinu að brotið ætti heima undir 1. mgr. 194. gr. hegningarlaga. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur þyngdi í dag dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir Gareese Joshua Gray, fyrir nauðgun gegn ólögráða stúlku, um fimmtán mánuði.

Héraðsdómur hafði dæmt Gareese í níu mánaða fangelsi en Landsréttur þyngdi dóminn í tvö ár.

Þá staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um að Gareese yrði gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.100.000 kr.

Hunsaði beiðnir stúlkunnar um að hætta

Gareese var ákærður þann 15. september árið 2022, þá tuttugu ára gamall, fyrir að hafa nauðgað stúlku á heimili hennar í júlí árið á undan.

Er kynferðismökunum lýst í ákærunni sem svo að Gareese hafi sest klofvega ofan á stúlkuna, haldið henni niðri og nuddað getnaðarlim sínum við andlit hennar þar til hann fékk sáðlát yfir andlit stúlkunnar.

Stúlkan lýsti því enn fremur fyrir landsrétti að hné mannsins hefðu verið upp við báða handleggi hennar á meðan brotinu stóð.

Þá kvaðst hún hafa reynt að ýta Gareese af sér og reynt að snúa sér undan honum en án árangurs. Þá hafi Gareese ítrekað hunsað beiðni hennar um að hætta.

Landsréttur féllst á heimfærslu ákvæðisins

Í ákæru málsins er brotið talið vera nauðgun og varða við 1. mgr. 194. greinar almennra hegningarlaga, en ákvæðið kveður á um að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis gerist sekur um nauðgun.

Héraðsdómur féllst ekki á það með ákæruvaldinu að háttsemi Gareese, eins og brotaþoli lýsti henni fyrir dómi, félli undir hugtakið „önnur kynferðismök“ í skilningi 1. mgr. 194. gr. hegningarlaga og var hann því sakfelldur fyrir brot gegn 209. grein laganna, en sú grein hefur í dómaframkvæmd verði talin fela í sér brot gegn blygðunarsemi.

Landsréttur komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að þar sem gerandinn hefði verið staðsettur í sama rými og brotaþoli þegar brotið átti sér stað, félli það undir „önnur kynferðisbrot“ í skilningi 1. mgr. 194. gr. hegningarlaga.

„Hefur í dómaframkvæmd verið miðað við hvort gerandi sé staddur í sama rými og brotaþoli og viðhafi þar háttsemi gagnvart brotaþola sem hafi kynferðislegt gildi fyrir geranda þannig að hún komi í staðinn fyrir eða bæti upp hefðbundið samræði,“ segir í dómnum.

Greiðir miskabætur og áfrýjunarkostnað

Var niðurstaða Landsréttar því sú að brot Gareese hefði réttilega verið heimfært til ákvæðisins í ákærunni og hæfileg refsing ákveðin fangelsi í tvö ár.

Ákvörðun héraðsdóms um miskabætur var staðfest og Gareese gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins að upphæð 3.070.219 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert