Ekki vilji til að taka útlendingamálin fyrir í gær

Guðrún að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Guðrún að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Eyþór Árnason

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir það valda henni vonbrigðum að hafa ekki fengið að mæla fyrir útlendingafrumvarpi sínu í gær eins og vonir stóðu til um.

Umræður um aðgerðir fyrir Grindvíkinga drógust á langinn og því verður ekki hægt að mæla fyrir útlendingafrumvarpinu fyrr en í fyrsta lagi 4. mars.

Voru þetta vonbrigði?

„Já það eru vonbrigði. Ég hafði gert ráð fyrir því að tala vel inn í nóttina,“ segir Guðrún.

Umræður drógust á langinn

Umræður drógust á langinn á Alþingi í gær og ásakaði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Pírata um málþóf í umræðum um aðgerðir fyrir Grindvíkinga. Spurð út í þessi ummæli segir Guðrún að það líti út fyrir það að þingið hafi ekki viljað taka útlendingamálin fyrir.

„Við vorum með mjög mikilvæg mál á dagskrá er varðaði Grindavík og það voru margir sem vildu taka til máls í þeim málum, og það er skiljanlegt þrátt fyrir að ég hefði viljað sjá þau mál verða afgreidd hraðar þar sem mikil samstaða er með Grindvíkingum,“ segir hún.

Hún segir að það hafi verið markmið hennar og ríkisstjórnarinnar að mælt yrði fyrir frumvarpinu núna í vikunni, en kjördæmavika tekur nú við og þing kemur ekki saman fyrr en 4. mars.

Þarf mjög ríkar ástæður ef virkja á ákvæði í Schengen

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði í gær utanríkisráðherra á Alþingi hvort að Ísland ætti að taka upp tímabundið innra eftirlit á innri landamærum vegna þess mikla fjölda hælisleitenda sem eru að koma til landsins. Sagði hann ákvæði vera í Schengen-samstarfinu sem heimilaði þetta.

Aðspurð um það hvort að komi til greina að nýta þetta ákvæði hér á Íslandi segir Guðrún að slíkt þurfi að byggjast á áhættumati ríkislögreglustjóra auk þess sem slíkt eftirlit er almennt bæði stað- og tímabundið.

„Ég hef skoðað þetta og það er ljóst að ef við ætlum að taka upp þetta eftirlit þarf það að grundvallast á áhættumati ríkislögreglustjóra. Það þurfa að vera mjög ríkar ástæður fyrir því og einhverjar sérstakar aðstæður sem hafa komið upp svo að það sé gert,“ segir Guðrún.

Eru með málið í skoðun

Alls hafa 8 ríki virkjað þetta úrræði en Guðrún segir mismunandi hvar og af hverju stjórnvöld nýti sér þetta.

Hún kveðst hafa heimildir fyrir því að Svíar, sem hafa virkjað þetta ákvæði, nýti sér þetta eftirlit aðeins á brúnni yfir Eyrarsund en séu ekki að nota þetta á stórum alþjóðlegum flugvöllum. Þýskaland, Austurríki, Pólland, Ítalía, Slóvenía, Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Frakkland hafa virkjað þetta ákvæði.

„Það er mismunandi hvernig þessi lönd hafa nýtt þetta úrræði. Eins og til dæmis í Þýskalandi, þetta er ekki á öllum flugvöllum í Þýskalandi – alls ekki. Það þarf þessar sérstöku ástæður til og við erum með þetta í skoðun,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert