Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar er spör á orðin þegar hún er spurð út í hvað valdi því að verktakar hafi horfið frá þátttöku í útboðsferli nýrrar Ölfusárbrúar sem ætlunin er að taka í notkun að tveimur árum liðnum.
Vegagerðin óskaði eftir þátttakendum í fyrirhuguðu útboði að gerð brúarinnar snemma á síðasta ári og í lok nóvember síðastliðins var þeim fimm fyrirtækjum sem vildu taka þátt í útboðinu send gögn varðandi það.
Heimildir mbl.is herma að öll fyrirtækin að ÞG Verk ehf. undanskildu hafi nú dregið þátttöku sína í útboðsferlinu til baka.
„Ég held að það sé ekki gáfulegt fyrir mig að ræða við þig um Ölfusárbrú meðan hún er enn í útboðsferli og því ferli lýkur ekki fyrr en í mars. Þannig að ég held að ég verði bara að fá að koma aftur til þín til að tala um það."
- En getið þið tjáð ykkur. Þetta virðist vera í mikilli úlfakreppu.
„Og það eru allskonar ástæður sem, ég get bara sagt að það er ekki samhljómur, það er ekki ein ástæða.“
- Hefur þú áhyggjur af stöðunni?
„Ég hef áhyggjur af því þegar óöryggi grípur um sig. Við erum líka, bara það að það gýs hér í hverjum mánuði hefur áhrif. Það er eldgos á Íslandi í hverjum mánuði. Og þegar maður situr sem verktaki úti í heimi þá finnst manni það ekki traustvekjandi í 50 kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem maður ætlar... þú skilur.“
- Er það að hafa áhrif núna?
„Ja, það er eitt af því sem er nefnt, bara til að gefa vísbendingar. En þetta verkefni er í útboðsferli og ég tel ekki tímabært að ræða það.“
Þau fyrirtæki sem sóttu um þátttöku í útboðinu eru:
Hochtief Infrastructure GmbH frá Essen í Þýskalandi, IKI Infrastructure Systems Co., frá Tókíó í Japan, Ístak og Per Aarsleff A/S - freyssinet Int. fyrir hönd óstofnaðs félags í Reykjavík, Puentes y Calzada Infraestructuras, S.L.U. á Spáni og ÞG verktakar í Reykjavík.
Viðtalið við Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar má sjá og heyra í heild sinni hér: