Sjálfstæðisflokkurinn heldur af stað í hringferð sína um landið í dag á sérmerktri rútu. Mun það því ekki fara fram hjá landsmönnum þegar flokkurinn rennir í bæinn.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, birti myndir af rútunni í morgun. Aftan á rútunni standa orðin: „Flautaðu ef þú vilt lægri skatta“.
Rútan heldur fyrst á Akranes og er súpufundur þar í hádeginu í dag. Því næst er förinni heitið á Bessastaði í Húnaþingi vestra og svo er fundur með trúnaðarmönnum á Blönduósi.
Flokkurinn mun svo þræða Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland og enda ferðina á Suðurlandi.
Síðar á árinu verður farið til Vestmannaeyja, á Snæfellsnes, á Vestfirði og á höfuðborgarsvæðið að því er fram kemur á vef Sjálfstæðisflokksins.