Lokað fyrir heitt vatn í Grindavík á morgun

HS Veitur segja að gera megi ráð fyrir að heitt …
HS Veitur segja að gera megi ráð fyrir að heitt vatn verði komið aftur á annað kvöld og að lítill þrýstingur verði áfram á hitaveitunni í Grindavík fram á mánudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

HS Veitur segja að lokað verði fyrir heitt vatn í Grindavík á morgun laugardag á meðan hjáveitulögn er tengd.

Fram kemur í tilkynningu frá HS Veitum, að eftir að í ljós kom að hitaveitulögnin, sem liggur undir hrauni frá því í eldgosinu þann 14. janúar, reyndist vera skemmd hafa HS Veitur unnið að úrbótum í samvinnu við almannavarnir og verktaka.

„Skemmdirnar á lögninni valda því að hátt í helmingur af því heita vatni sem sent er frá orkuverinu í Svartsengi tapast á leiðinni til Grindavíkur með þeim afleiðingum að erfitt hefur reynst að ná upp þrýstingi í hitaveitunni í bænum,“ segir í tilkynningunni. 

Bent er á, að í fyrstu hafi verið gerð tilraun til að grafa niður að lögninni í gegnum heitt hraunið þar sem talið er að lekinn sé en þegar það tókst ekki hafi verið ráðist í vinnu við að koma fyrir hjáveitu hitaveitulögn yfir nýja hraunið.

„Hafa framkvæmdir gengið vel og er áætlað að tengja lögnina við hitaveituna í Grindavík á morgun, laugardag. Vegna þeirrar framkvæmdar verður lokað fyrir heitt vatn í Grindavík frá kl. 9 og þar til framkvæmdum líkur. Gera má ráð fyrir að heitt vatn verði komið aftur á annað kvöld og að lítill þrýstingur verði áfram á hitaveitunni í Grindavík fram á mánudag,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert