Andrés Magnússon
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að ekki sé til húsnæði til að mæta eðlilegri fólksfjölgun Íslendinga, hvað þá til þess að taka á móti miklum fjölda hælisleitenda.
Hún segir mikið ábyrgðarleysi að tala fyrir opnum landamærum landsins. Hennar persónulega skoðun sé að íslenska ríkið geti ekki tekið á móti nema um 500 hælisleitendum á ári.
„Það finna vitaskuld allir fyrir því þegar á tveimur árum koma hingað níu þúsund manns í gegnum verndarkerfið,“ segir Guðrún í Dagmálum Morgunblaðsins.
„Við eigum ekki einu sinni húsnæði, við höfum ekki byggt húsnæði til þess að mæta eðlilegri fólksfjölgun okkar Íslendinga. Hvar ætlum við að koma fólki fyrir?“
Guðrún segir mikið ábyrgðarleysi að tala fyrir algjörlega opnum landamærum líkt og Píratar og fleiri geri.
„Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að allur heimurinn getur komið til Íslands,“ segir hún.
„Hvert einasta mannsbarn getur staðið á Vatnajökli. Það er bara Vatnajökull. Það liggur alveg í hlutarins eðli að allir íbúar heimsins geta komið til Íslands. Er eitthvað vit í því? Nei, það er það ekki.“
Guðrún segir að ekkert þýði að tala um opin landamæri á sama tíma og halda eigi uppi heilbrigðiskerfi og skólakerfi. Slík fjölgun þurfi að eiga sér aðdraganda. Það þurfi að undirbúa og byggja innviði. „Af því að við ætlum að vera velferðarsamfélag.“
Viðtalið við Guðrúnu má horfa á í fullri lengd með því að smella hér að neðan.