Jón verðlaunaður fyrir „afreksverk“

Jón Erlendsson þýðir Paradísarmissi Miltons.
Jón Erlendsson þýðir Paradísarmissi Miltons. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Erlendsson hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin 2024 fyrir Paradísarmissi eftir John Milton. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin á Gljúfrasteini síðdegis í dag. 

Í dómnefnd sátu Guðrún H. Tulinius (formaður), Elísabet Gunnarsdóttir og Þórður Helgason en í umsögn dómnefndar segir:

„Það er hvorki lítið verk né létt sem Jón Erlendsson tekst á hendur er hann þýðir á okkar tungu Paradísarmissi Miltons, eitt af höfuðverkum heimsbókmenntanna, undir frumhættinum. Flest höfum við haft nokkur kynni af þessu verki í þýðingu Jóns á Bægisá sem þýddi undir þýðingarhætti síns tíma, fornyrðislaginu. Sú þýðing er góð, en hún er barn síns tíma og setur nútíma lesendur oft í nokkurn vanda. Nú ber að fagna því að ný þýðing hefur litið dagsins ljós og þar er ekki kastað til höndunum. Margir hafa saknað þess að hafa ekki undir höndum nákvæma þýðingu undir frumhættinum, stakhendunni, rímlausum hætti þar sem hver lína geymir 11 atkvæði, en að íslenskri hefð með rími og stuðlum.

Texti hinnar nýju þýðingar er afar nákvæmur og læsilegur og sýnir oft mikla hugkvæmni þýðandans. Paradísarmissir á enn erindi við okkur; þar er lýst baráttu góðs og ills sem aldrei tekur enda, því spillingin leikur enn lausum hala. Lúsifer er ekki af baki dottinn. Þýðing Jóns Erlendssonar er er ekki aðeins eljuverk, heldur afreksverk. Við höfum fengið stórvirki í hendur.“

Þýddi framan af fyrir skúffuna

Í samtali við Morgunblaðið segir Jón að hann verði „hálf hvumsa“ þegar hann heyri hól af þessu tagi.

„Eins og þegar talað er um þetta sem afrek. Þegar ég sat við þetta heima í tómstundum mínum eins og hvert annað tómstundagaman, eða mér til heilsubótar, þá var ég ekki með neitt afreksverk sérstaklega í huga. Þetta kom nokkurn veginn af sjálfu sér.“ 

Þýðingar hafa lengi verið áhugamál hjá Jóni. „Ég var búinn að vera að grúska í þessum gömlu bókmenntum lengi og þreifa svolítið fyrir mér með þýðingar fyrir skúffuna,“ segir hann. 

„Þegar ég byrjaði á þessu var ég í fullri vinnu í gjörólíku starfi. Það er kannski gott, að vera á daginn í einhverju allt öðruvísi og fara svo inn í þetta þegar tíminn gefst. Ég vann hjá Vegagerðinni í upp undir 40 ár, við landmælingar aðallega.“ 

„Eins og þegar talað er um þetta sem afrek. Þegar …
„Eins og þegar talað er um þetta sem afrek. Þegar ég sat við þetta heima í tómstundum mínum eins og hvert annað tómstundagaman, eða mér til heilsubótar, þá var ég ekki með neitt afreksverk sérstaklega í huga. Þetta kom nokkurn veginn af sjálfu sér.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðrir tilnefndir þýðendur

Aðrir tilnefndir voru: 

  • Áslaug Agnarsdóttir, fyrir þýðingu sína Gráar býflugur. Höfundur Andrej Kúrkov. Bjartur gefur út.
  • Hallur Páll Jónsson, fyrir þýðingu sína Mæður og synir. Höfundur Theodor Kallifatides. Dimma útgáfa gefur út.
  • Heimir Pálsson, fyrir þýðingu sína Lokasuðan. Höfundur Torgny Lindgren. Ugla útgáfa gefur út.
  • Gyrðir Elíasson, fyrir þýðingu sína Grafreiturinn í Barnes. Höfundur Gabriel Josipovici. Dimma útgáfa gefur út.
  • Pálína S.Sigurðardóttir, fyrir þýðingu sína Andkristur. Höfundur Friedrich Nietzsche. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út.
  • Uggi Jónsson, fyrir þýðingu sína Orðabók hinna týndu orða. Höfundur Pip Williams. Mál og menning gefur út.

Bandalag þýðenda og túlka veitir verðlaunin í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda.

Viðtal við Jón Erlendsson má finna á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, laugardag, 24. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka