Umsóknir um alþjóðlega vernd árið 2023 voru 4.155. Stærstur hluti umsóknanna kom frá ríkisborgurum tveggja ríkja, Úkraínu (1.618) og Venesúela (1.586).
Umsóknir frá ríkisborgurum annarra ríkja voru innan við þúsund talsins, flestar frá ríkisborgurum Palestínu (221), Nígeríu (116), Sómalíu (77) og Sýrlands (65). Samtals áttu umsækjendur ríkisföng í 64 löndum. 58 umsóknir komu frá einstaklingum sem ekki voru að sækja um vernd á Íslandi í fyrsta sinn, að því er segir í tilkynningu á vef Útlendingstofnunar.
Í samanburði við árið 2022 fækkaði umsóknum ríkisborgara Úkraínu um rúm 700 en umsóknum frá ríkisborgurum Venesúela fjölgaði um tæp 400. Fjöldi umsókna frá öðrum ríkisborgurum stóð nánast í stað milli ára. Um fimmtungur þessara umsækjanda hafði fengið veitta vernd í öðru Evrópuríki áður en þau sótt um vernd hér á landi, að því er stofnunin segir frá.
Nánar um tölfræði Útlendingastofnunar.
Þá kemur fram, að umsóknir um vernd vegna fjöldaflótta frá Úkraínu hafi að jafnaði verið 135 á mánuði og hafi dreifst nokkuð jafnt yfir árið. Meðalfjöldi umsókna frá Venesúela var að jafnaði um 190 á mánuði fyrri hluta ársins. Þeim fækkaði mikið á síðari hluta ársins og voru þá að jafnaði um 70 á mánuði.
Tæpur helmingur umsækjenda var á aldrinum 18 til 34 ára. Rúmur þriðjungur var eldri en 35 ára og tæpur fjórðungur börn. Rétt rúmur helmingur umsækjenda var karlkyns.
Þá kemur fram, að afgreiddar umsóknir um vernd á árinu hafi verið 3.940. Útlendingastofnun tók 3.466 ákvarðanir varðandi umsóknir og 458 drógu umsóknir sínar til baka. Sextán umsóknum var vísað frá þar sem um var að ræða endurteknar umsóknir einstaklinga sem þegar höfðu fengið svar við fyrri umsókn um vernd.
412 einstaklingum var veitt vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi í efnislegri meðferð. Stærstur hluti þeirra sem fékk jákvæða niðurstöðu voru ríkisborgarar Palestínu (153), Venesúela (58), Sýrlands (46), Afganistan (30) og Nígeríu (23).
1.560 einstaklingum var veitt mannúðarleyfi á grundvelli sameiginlegrar verndar vegna fjöldaflótta frá Úkraínu.
Vernd og viðbótarvernd fylgir dvalarleyfi með fjögurra ára gildistíma. Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða gildir í eitt ár. Leyfin eru endurnýjanleg, að því er Útlendingastofnun greinir frá.
Stærstur hluti þeirra 981 sem var synjað um vernd í efnislegri meðferð voru ríkisborgarar Venesúela (763), Kólumbíu (38), Sómalíu (34), Írak (15) og Jórdaníu (15).
Ákvörðun um synjun á vernd þýðir að umsækjanda ber að yfirgefa landið og fær hann alla jafna tveggja ára endurkomubann til Íslands fari hann ekki innan veitts frests.
513 umsóknir fengu ekki efnislega meðferð, ýmist vegna þess að annað ríki Dyflinnarsamstarfsins bar ábyrgð á umsókn viðkomandi, umsækjandinn hafði þegar fengið vernd í öðru ríki eða hafði dvalarleyfi í öruggu þriðja ríki. Stærstur hluti þeirra voru ríkisborgarar Palestínu (126), Nígeríu (104), Sómalíu (58), Venesúela (46) og Írak (33).
Ákvörðun um að umsókn fái ekki efnislega meðferð þýðir að umsækjanda beri að yfirgefa landið og fær hann eftir atvikum tveggja ára endurkomubann til Íslands, að því er stofunin segir.
Umsóknir um vernd vegna fjöldaflótta voru að jafnaði afgreiddar á fjórum dögum. Meðalmálsmeðferðartími allra annarra ákvarðana varðandi umsóknir um vernd var 175 dagar.
Umsóknir sem fengu efnislega meðferð voru að jafnaði afgreiddar á 200 dögum. Í þeirri tölu vegur þungt mikill fjöldi umsókna frá ríkisborgurum Venesúela sem bárust á árinu 2022 og voru afgreiddar 2023. Ef þessar umsóknir eru undanskildar var meðalmálsmeðferðartími efnislegrar meðferðar 142 dagar.
Umsóknir sem ekki fengu efnislega meðferð voru að jafnaði afgreiddar á 117 dögum. Umsóknir ríkisborgara öruggra upprunaríkja voru að jafnaði afgreiddar á 13 dögum.
Útlendingastofnun aðstoðaði 548 einstaklinga við að yfirgefa landið í kjölfar þess að hafa dregið umsókn sína til baka eða fengið synjun við umsókn um vernd. Til samanburðar yfirgáfu 98 einstaklingar landið sjálfviljugir árið á undan.
Flestir þeirra sem fengu aðstoð við sjálfviljuga heimför voru ríkisborgarar Venesúela sem höfðu dregið umsóknir sínar til baka.