Leiðtogafundurinn kostaði skildinginn

Kostnaðartölur vegna Leiðtogafundar Evrópuráðsins var kynntur.
Kostnaðartölur vegna Leiðtogafundar Evrópuráðsins var kynntur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heildarkostnaður við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var hér á landi í maí á síðasta ári nam rúmum tveimur milljörðum króna.

Þá komu rúmlega 1.200 starfsmenn að fundinum. Þar af sinntu 696 innlendir og 96 erlendir lögreglumenn öryggisgæslu.

Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, til Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra.

Leiðtogafundinn sóttu fulltrúar allra 46 aðildarríkja Evrópuráðsins, þar af 37 þjóðarleiðtogar og forsætisráðherrar, auk háttsettra fulltrúa alþjóðastofnana og fimm áheyrnarríkja ráðsins. Samtals komu 65 erlendar sendinefndir og hátt í eitt þúsund gestir til landsins til að taka þátt í fundinum auk meira en 200 erlendra blaða- og fjölmiðlamanna.

Síðbúinn ákvörðun leiddi til kostnaðarauka

Fram kemur í svari utanríkisráðuneytisins að síðbúin ákvörðun Evrópuráðsins um að halda leiðtogafundinn á Íslandi hafi leitt til kostnaðarauka ef miðað er við áætlanir. Þannig var í fjárlögum 2023 gert ráð fyrir að haldinn yrði umfangsminni utanríkisráðherrafundur í lok formennsku Íslands. Í sameiginlegu minnisblaði forsætis-, dómsmála- og utanríkisráðuneyta, sem lagt var fyrir ríkisstjórn 31. mars 2023, nam áætlaður heildarkostnaður Íslands við leiðtogafundinn 1.324 millj. kr eða tæplega 700 milljónum króna minna en raunin varð. 

123 milljónir í þjálfun lögreglumanna

Þá segir að í viðleitni sinni til að uppfylla öryggiskröfur og staðla hafi lögreglan sent lögreglumenn í sérstaka þjálfun til að tryggja öryggi á fundi af slíkri stærðargráðu. Hvert lögregluembætti á landinu sendi lögreglumenn í þessa þjálfun. 

„Hver og ein sendinefnd sem sótti fundinn naut sérstakrar öryggisgæslu lögreglu á ferðum og gististöðum,“ segir í svarinu. 

Leiðtogafundi Evrópuráðsins var haldinn í maí á síðasta ári.
Leiðtogafundi Evrópuráðsins var haldinn í maí á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kostnaðurinn við þessa þjálfun var 123 milljónir króna. Þá kemur fram að kaup og leiga á búnaði hafi kostað 369 milljónir króna. 

Engir bílar keyptir 

Eins kemur fram í svarinu að engir bílar hafi verið keypt fyrir fundinn. Allir voru þeir leigðir af bílaleigu og bílaumboðum. Að auki voru 10 bílar frá Stjórnarráðinu lánaðir til verkefnisins. 

mbl.is sagði hins vegar frá því að um 50 Audi Q8 e-tron bílar hafi verið fluttir til landsins sérstaklega vegna fundarins. Hekla sá um innflutninginn en Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, sagði frá því síðastliðið sumar að talsvert væri um að fólk vildi kaupa bíla frá fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka