Sláturfélagi Vopnfirðinga hefur verið slitið og þar með verður síðasta sláturhúsinu á Austurlandi lokað.
Það er Ríkisútvarpið sem greinir frá en ákvörðunin var tekin á hluthafafundi Sláturfélags Vopnfirðinga í gær.
Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri félagsins, segir í samtali við Rúv að rekstur félagsins hafi verið erfiður undanfarin ár og að vaxtagreiðslur hafi hækkað um 20 milljónir á tveimur árum. Það sé um það bil tapið á síðasta ári og útlit fyrir að það verði ekki minna í ár.
Því sé reksturinn að hans sögn einfaldlega ekki sjálfbær lengur, en hann kveðst þó hafa fulla trú á því að eignir félagsins dugi fyrir skuldum þess.
Þá segir Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps, vonbrigði að loka þurfi sláturhúsinu. Með því tapist útsvarstekjur auk þess sem breytingar verði á samfélaginu.
Rúv greinir jafnframt frá því að lokunin feli í sér að bændur á Austurlandi þurfi nú að láta flytja fé sitt um enn lengri veg.