Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er komin með til rannsóknar mál viðskiptavinar Landsbankans sem varð fyrir barðinu á þjófum við hraðbanka í vikunni.
Landsbankinn sendi frá sér tilkynningu um málið í dag en þjófarnir, sem voru þrír karlar og ein kona, náðu korti af viðskiptavini bankans og þar sem þeir höfðu komist yfir PIN númerið gátu þeir tekið pening út af kortinu. Þrjótarnir beittu brögðum sem eru þekkt víða erlendis, en minna hefur farið fyrir hér á landi.
„Þetta mál er í fullri rannsókn og við erum að reyna að bera kennsl á fólkið en við erum að fara yfir myndefni af þessum aðilum,“ segir Heimir Ríkharðsson lögreglufulltrúi við mbl.is.
Heimir segir að svona mál komi upp annað slagið hér á landi en um þaulskipað rán hafi verið að ræða í þessu tilviki.
„Sem betur fer í þessu tilviki uppgötvaði maðurinn frekar fljótt að hann vantaði debetkortið og hann náði að láta bankann loka því áður en þetta var orðin mjög stór upphæð sem var tekin út,“ segir Heimir.
Hann segir að þjófarnir hafi náð að taka út rúmlega 200 þúsund krónur af reikningi mannsins en það hafi geta farið mun ver.
„Við viljum brýna fyrir fólki að gæta þess að enginn geti séð PIN númerið þegar það er slegið inn í hraðbankann og hafa varann á sér gagnvart öðru fólki þegar úttekt er framkvæmd,“ segir Heimir.