Mikil samstaða er um áframhaldandi sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka innan ríkisstjórnarinnar. Fulltrúar Vinstri grænna í ríkisstjórn, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, staðfesta þetta í samtali við mbl.is.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur kynnt drög að frumvarpi um ráðstöfun eftirstandandi eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka. Gert er ráð fyrir að sala á 42,5% hlut ríkisins verði framkvæmd í tveimur almennum útboðum. Áætlað er að ríkið fari í fyrra söluútboðið á þessu ári.
Þetta staðfesti Þordís Kolbrún við mbl.is í dag.
Katrín Jakobsdóttir segir fulla samstöðu innan ríkisstjórnar um aðferðafræðina bak við söluna, sem Þórdís Kolbrún hefur rætt bæði á vettvangi ríkisstjórnar og ráðherranefndar.
„Það sem mér finnst gott við þetta er að ferlið er mjög gagnsætt. Frumvarpið gerir í raun ráð fyrir opnu útboði, sem bæði fagfjárfestar og almenningur hafa aðgang að.“
„Mér finnst líka gott að frumvarpið fer til meðferðar á þinginu og verður afgreitt þar ólíkt því sem tíðkaðist í fyrri sölum þar sem Bankasýslan kynnti í raun bara fyrir þinginu. Þarna fáum við tækifæri til að eiga lýðræðislegt samtal um þessa aðferðafræði og það er full samstaða innan ríkisstjórnarinnar um það.“
Guðmundur Ingi segir að drög að frumvarpinu hafi verið kynnt ríkisstjórninni áður en það fór í Samráðsgátt. Hann segir ekkert hafa breyst varðandi stefnu ríkisins um að selja Íslandsbanka.
„Í fyrsta lagi bíðum við auðvitað bara eftir því að sjá hvaða athugasemdir koma þar og þá mun það koma aftur til umræðu í ríkisstjórn. Þannig þetta er í ferli. En það er alveg ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir hafa áður sammælst um það að selja Íslandsbanka í skrefum. Það hefur í sjálfu sér ekkert breyst,“ segir Guðmundur að ríkisstjórnarfundi loknum.
Hann segir að þingmenn Vinstri grænna hafi verið mjög skýrir í máli um það að Bankasýsla ríkisins ætti ekki að taka þátt í áframhaldandi útboði og að hún verði lögð niður. Eins og greint hefur verið frá mun Bankasýsla ríkisins ekki annast komandi sölu á Íslandsbanka.