Sundlaugargestir ósáttir við styttinguna

Flestir héldu sig í heitum pottum Árbæjarlaugar í kvöld.
Flestir héldu sig í heitum pottum Árbæjarlaugar í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Létt var yfir sundlaugargestum Árbæjarlaugar í kvöld þrátt fyrir ósætti með fyrirhugaða styttingu opnunartíma sundlauga Reykjavíkur. Blaðamaður mbl.is kíkti á sundlaugarbakkann og spjallaði við gesti.

Helgaropnunartími í sundlaugum borgarinnar verður styttur í annan endann frá klukkan 22 á kvöldin til klukkan 21, frá og með 1. apríl.

Á móti kemur að opnunartími verður lengdur á rauðum frídögum.

Margir í sundi eftir klukkan 21

Eyþór Snæland og Hanna Ágústdóttir, sundlaugargestir, sögðu samhljóma við blaðamann að þau færu nær eingöngu í sund á kvöldin.

„Það væri alveg næs að halda opnunartímanum eins og hann er,“ segir Hanna.

„Það er reyndar gott á rauðu dögunum, en ég skil ekki um helgar,“ segir Eyþór. „Það er alltaf verið að reyna að spara,“ segir hann og hlær.

Eyþór bendir á að laugarsvæðið sé þéttskipað þó svo að klukkan sé farin að ganga tíu.

Hanna bendir á að þau hefðu líklega ekki komist ofan í laugina í kvöld hefði hún lokað klukkan níu en þau voru bæði ný komin ofan í þegar blaðamaður náði af þeim tali.

„Við hefðum ekki náð. Ég er ósáttur,“ bætir Eyþór við.

Hanna Ágústdóttir og Eyþór Snæland voru nýmætt þegar blaðmaður náði …
Hanna Ágústdóttir og Eyþór Snæland voru nýmætt þegar blaðmaður náði tali af þeim. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mætti vera opið til miðnættis

Þeir Agnar Ólafsson, Matthías Magnússon, Sigurður Kristjánsson og Steinþór Arnarson sögðust ósáttir með styttri opnunartíma um helgar en þeir hugsa í lausnum. 

Agnar segir að hann hefði gjarnan viljað hafa opið til miðnættis í alla vega einni eða tveimur sundlaugum Reykjavíkur.

„Það mætti þá bara stytta meira í öðrum,“ segir Agnar. Þannig væri hægt að fara í sund eftir klukkan níu einhvers staðar í borginni um helgar.

Sigurður telur líklegt að margir séu svekktir yfir styttingunni um helgar, því það fara svo margir í sund þá.

„Ég fer persónulega eiginlega bara á virkum dögum, það eru svo margir um helgar,“ segir Sigurður.

Matthías Magnússon, Agnar Ólafsson, Sigurður Kristjánsson og Steinþór Arnarson ræddu …
Matthías Magnússon, Agnar Ólafsson, Sigurður Kristjánsson og Steinþór Arnarson ræddu málin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt í lagi að rukka eldri túrista

„Ég er alla vega ekki hrifinn af þessu,“ segir Steinþór. „Maður gerir bara einhvern vegin ráð fyrir því að það sé opið og að maður geti tekið smá andlega slökun. Það er óþolandi að mæta stundum og sjá að laugarnar eru lokaðar.“

Sigurður telur nær að hækka gjaldið í laugarnar um nokkrar krónur.

„Það nefndi einhver hugmynd um að rukka eldri borgara sem eru túristar. Mér finnst það líka bara allt í lagi,“ segir Steinþór.

Matthías veltir því fyrir sér hvort að skýringin á lengri opnunartíma á rauðum dögum sé vegna fækkunar sóknarbarna þjóðkirkjunnar.

Næs að vera til klukkan 10

Tristan Máni Elizaldysson segist mikið fara í sund og þá oftast á kvöldin.

„Mér finnst að það ætti alla vega ekki að stytta opnunartímann til klukkan níu um helgar. Ég kem oftast frekar seint. Það væri alveg næs að geta verið hérna til klukkan tíu.

Hann segist óviss um hvort að lengri opnunartími á frídögum hafi áhrif á sig.

Tristan Máni Elizaldysson fer mest í sund á kvöldin.
Tristan Máni Elizaldysson fer mest í sund á kvöldin. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka