Landsbankinn varar við þjófum sem stela kortum frá fólki sem er að taka út peninga í hraðbanka og ítrekar mikilvægi þess að enginn sjái þegar PIN er slegið inn.
Bankinn greinir frá því, að að minnsta kosti einn viðskiptavinur Landsbankans hafi orðið fyrir barðinu á þjófum við hraðbanka í vikunni sem leið. Forsvarsmenn bankans telja fulla ástæðu til að ætla að þeir muni reyna að endurtaka leikinn, annaðhvort við hraðbanka Landsbankans eða annars staðar.
„Í því tilviki sem við vitum af virðist sem fjórir einstaklingar, þrír karlar og ein kona, hafi unnið saman að þjófnaðinum. Einn úr hópnum fylgdist með þegar viðskiptavinur Landsbankans setti kort sitt í hraðbanka í útibúi bankans í Borgartúni. Þegar viðskiptavinurinn hafði slegið inn PIN, lét svikarinn líta út fyrir að viðskiptavinurinn hefði misst miða á gólfið. Á meðan viðskiptavinurinn beygði sig niður til að taka miðann upp, kom annar úr þjófagenginu upp að hraðbankanum og tók kortið út á meðan félagi hans hélt áfram að draga athygli viðskiptavinarins frá því sem var að gerast. Þjófarnir fóru síðan þegar í stað í nálægan hraðbanka og tóku út peninga af reikningi viðskiptavinarins, enda höfðu þau bæði kort og PIN viðkomandi,“ segir í tilkynningu á vef bankans.
Bent er á, að aðferðir sem þessar séu vel þekktar erlendis en séu ekki algengar hérlendis. Þá er tekið fram, að málið hafi verið kært til lögreglu sem sé að rannsaka málið.
„Við ítrekum mikilvægi þess að gæta þess að enginn geti séð PIN þegar það er slegið inn. Einnig er mjög mikilvægt að hafa varann á gagnvart hvers kyns truflunum við úttekt. Viðbrögð við svikum: Ef þú telur að einhver hafi komist yfir greiðslukortið þitt er mikilvægt að frysta það eða loka því strax. Ef kortinu þínu eða kortanúmeri er stolið getur þú fryst það strax í Landsbankaappinu. Við mælum með að þú hafir líka samband við okkur sem fyrst í s. 410 4000, með því að senda okkur tölvupóst á netfangið landsbankinn@landsbankinn.is eða í gegnum netspjallið. Utan afgreiðslutíma bankans getur þú hringt í 525 2000 sem er neyðarnúmer vegna Visa-korta,“ segir enn fremur.