Unnið er daga og nætur við að fergja Njarðvíkuræðina, heitavatnslögnina sem liggur frá Svartsengi til Njarðvíkur, á þeim stöðum sem hraunhermar benda til að lögnin gæti orðið í mestri hættu. Því verkefni ætti að ljúka nú á mánudag eða þriðjudag.
Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.
„Staðan er þannig að það er verið að vinna í öllum þessu lögnum, hvort sem þær liggja til Njarðvíkur eða Grindavíkur, og það er vinna allan sólarhringinn,“ segir Guðrún.
Eins og greint hefur verið frá þá telur Veðurstofa Íslands miklar líkur á kvikuhlaupi og mögulega eldgosi í næstu viku, haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða og nú.
Guðrún segir ekkert hægt að útiloka þegar kemur að ófyrirsjáanleika náttúrunnar og því ekki hægt að útiloka að eitthvað gefi sig, eins og þegar síðast gaus og Njarðvíkuræðin rofnaði með tilheyrandi heitavatnsleysi fyrir Suðurnes.
Búið er að gera allt sem hægt er að gera til að tryggja innviði enn frekar á þeim stutta tíma sem liðinn er frá gosinu og nefnir Guðrún í því samhengi nýjar lagnir, fergjun Njarðvíkuræðarinnar, nýja akvegi og fleira.
„Svo erum við sömuleiðis búin að vera í áframhaldandi uppbyggingu á varnargörðum og við munum halda því verkefni áfram.“
Búið er að flytja efni til Svartsengis svo að hægt sé að ganga skjótt til verka ef til þess kemur að skemmdir verði á innviðum vegna hraunflæðis. Þá nefnir Guðrún að almannavarnir hafi fest kaup á fleiri rafmagnsofnum til að skaffa íbúum sem ekki eiga slíka ef til þess kemur að aftur verði heitavatnslaust.
Hún segir að fyrirbyggjandi aðgerðir til að vernda innviði miðist að miklu leyti við hvar sé áætlað að kvika komi upp og hvert hún gæti runnið.
„Vandamálið við allar þessar hamfarir er það að það er erfitt að segja til um það hvar verður tjón eða hvar kemur upp kvika,“ segir Guðrún.