VR slítur sig frá breiðfylkingunni

Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson.
Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

VR hef­ur ákveðið að slíta sig frá breiðfylk­ingu stétt­ar­fé­laga í samn­ingaviðræðunum við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins en Starfs­greina­sam­bandið, Efl­ing og Samiðn halda áfram kjaraviðræðunum við SA.

Vil­hjálm­ur Birg­is­son formaður Starfs­greina­sam­bands­ins staðfest­ir þetta í sam­tali við mbl.is og seg­ir hann Starfs­greina­sam­bandið, Efl­ingu og Samiðn munu funda stíft alla helg­ina með Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins. Mbl.is greindi frá því í gær að breiðfylk­ing­in hefði náð sam­komu­lagi við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins um for­sendu­ákvæði samn­ings­ins.

„Það er for­manns eða stjórn­ar VR að svara fyr­ir það af hverju það slít­ur sig frá breiðfylk­ing­unni. Við í Starfs­greina­sam­band­inu, Efl­ingu og Samiðn sitj­um enn við samn­inga­borðið en VR kaus að fara aðra leið og það er ekk­ert við því að segja,“ seg­ir Vil­hjálm­ur við mbl.is.

Hann seg­ir að búið sé að skipu­leggja stíf fund­ar­höld alla helg­ina og stefn­an sé áfram að ná niður verðbólgu og vöxt­um með aðkomu stjórn­valda og sveit­ar­fé­laga með hags­muni sam­fé­lags­ins í heild sinni að leiðarljósi.

Spurður hvort það sé högg fyr­ir breiðfylk­ing­una að VR hafi kosið að slíta frá sig sam­starf­inu seg­ir Vil­hjálm­ur:

„Samstaðan er það sem skipt­ir máli í öllu í því sem fólk tek­ur sér fyr­ir hend­ur, hvort sem það er í fé­laga­sam­tök­um, íþrótt­um eða hverju sem er. Þetta var niðurstaða VR. Samn­ings­um­boðið ligg­ur hjá hverju lands­sam­bandi og fé­lagi fyr­ir sig og þannig er lýðræðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert