Andlát: Karl J. Steingrímsson

Karl J. Steingrímsson athafnamaður, oft kenndur við verslunina Pelsinn, lést á Landspítalanum í Fossvogi fimmtudaginn 22. febrúar, 76 ára að aldri.

Karl fæddist 19. mars árið 1947 í Reykjavík og ólst upp í Vesturbænum. Foreldrar hans voru Steingrímur Klingenberg Guðmundsson og Þórunn Sigurðardóttir.

Karl stundaði nám við Miðbæjarskólann, Laugarnesskóla og síðar Verzlunarskóla Íslands. Karl var virkur í knattspyrnu hjá KR og lék með fyrsta unglingalandsliði Íslands árið 1965. Eftir Verzlunarskólann vann hann ýmis störf uns hann stofnaði félag með eiginkonu sinni árið 1976 og hófu þau sjálfstæðan rekstur sem Karl sinnti allt til dánardags.

Karl var umsvifamikill í fasteignaviðskiptum um nokkurra áratuga skeið og eignaðist hann meðal annars þekktar eignir í miðbæ Reykjavíkur. Þar á meðal eru Kirkjuhvoll, Skólabrú, Austurstræti 16, Naustið, Tryggvagata 18 og Laugavegur 16 ásamt Garðatorgi í Garðabæ. Hjónin opnuðu verslunina Pelsinn sem rekin var í rúmlega 40 ár. Hún var upphaflega til húsa við Njálsgötu 14, en síðar við Kirkjuhvol og loks Tryggvagötu 18.

Karl var einnig virkur í félagsstörfum, þar á meðal var hann formaður Knattspyrnudeildar Breiðabliks þegar Breiðablik varð Íslandsmeistari bæði í meistaraflokki kvenna og karla. Hann var gjaldkeri í stjórn vináttufélags Ítalíu sem kom að ýmsum viðburðum. Karl var jafnframt formaður húsnefndar JCI-hreyfingarinnar á Íslandi og stóð meðal annarra að styrktarframlagi og fjársöfnun fyrir húsnæði JCI við Hellusund 3 í Reykjavík.

Eftirlifandi eiginkona Karls er Ester Ólafsdóttir. Börn Karls eru Pétur Albert, Aðalbjörg, Aron Pétur, Styrmir Bjartur, Karlotta og Hrafntinna Viktoría. Barnabörn Karls eru sextán.

Útför Karls fer fram frá Hallgrímskirkju þriðjudaginn 19. mars kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka