Félag atvinnurekenda hefur ítrekað fyrirspurn sína til Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, vegna notkunar alþingismanna og starfsmanna ríkisins á vildarpunktum sem fengist hafa í gegnum kaup ríkisins á flugfarmiðum.
Heldur félagið því fram að það fari gegn lögum og siðareglum þingsins að þingmenn þiggi vildarpunkta fyrir að beina viðskiptum ríkisins til flugfélaga sem bjóði upp á slík kjör.
Hafi þingmenn notað vildarpunkta, sem fengust í gegnum flugfarmiðakaup ríkisins, í eigin þágu fari það einnig gegn reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um greiðslu ferðakostnaðar.
Þar er kveðið á um að fríðindi og hvers kyns vildarkjör, sem aflað er við greiðslu á farmiða, skuli eingöngu koma þeim ríkisaðila sem greiðir farmiðann til góða.
Eins og mbl.is fjallaði um í október voru viðskipti Alþingis við Icelandair umtalsvert meiri en við flugfélagið Play árið 2022. Námu útgjöld Alþingis til flugmiðakaupa af Icelandair 20,9 milljónum króna það árið samanborið við rúmlega 500 þúsund krónur til miðakaupa af Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagði þingmenn hafa persónulega hag af því að velja Icelandair út af vildarpunktunum sem þeir fengju í sinn hlut.
FA sendi upphaflega fyrirspurn á Alþingi í október vegna málsins en Birgir kvaðst ekki vilja tjá sig um málið á þeim tíma.
Var málið þá til umfjöllunar hjá kærunefnd útboðsmála. Hafði flugfélagið Play, sem býður ekki upp á vildarpunkta, kært það sem félagið taldi ólögmæta framkvæmd þingsins á rammasamningi til kærunefndar.
Þann 19. febrúar síðastliðinn komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sýnt fram á brot gegn ákvæðum rammasamnings Ríkiskaupa um flugsæti.
Ekki var þó tekin afstaða til þess hvort fyrirkomulag vildarpunkta væru brot gegn reglum fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem það falli ekki undir valdsvið nefndarinnar.
FA ítrekar að kjarni erindi þess hafi ekki verið möguleg brot þingsins á rammasamningnum heldur að það að þingmenn þiggi persónuleg fríðindi vegna ferða sem skattgreiðendur kosta sé spilling. Eigi lög og siðareglur að hindra slíkt.
„Svo háttar jafnframt til að spillingin bitnar á félagsmanni FA, sem ekki veitir ríkisstarfsmönnum vildarpunkta, heldur eingöngu afslátt af flugfargjöldum samkvæmt rammasamningi,“ segir í fyrirspurn FA til þingforseta.
Eru spurningar FA til þingforseta eftirfarandi:
1. Telur þingforseti að það að þingmenn noti vildarpunkta í persónulega þágu standist 11. gr. siðareglna alþingismanna?
2. Telur þingforseti að það að þingmenn noti vildarpunkta í persónulega þágu standist 9. gr. reglna um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins, út gefinna af fjármála- og efnahagsráðherra 1. október 2020?
3. Telur þingforseti að það að þingmenn noti vildarpunkta í persónulega þágu standist 1. mgr. 109. gr. hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 128. gr. sömu laga?
4. Er þingforseti þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt fyrirkomulag og siðlegt og líklegt til að stuðla að ábyrgri nýtingu fjármuna skattgreiðenda að alþingismenn og aðrir starfsmenn hins opinbera þiggi vildarpunkta til eigin persónulegra nota vegna ferðalaga sem skattgreiðendur kosta?