Langtímastuðningur Íslands við Úkraínu

Af tilefni þeirra sorglegu tímamóta að tvö ár eru liðin …
Af tilefni þeirra sorglegu tímamóta að tvö ár eru liðin frá innrás Rússa í Úkraínu er fána Úkraínu flaggað við hlið þess íslenska við utanríkisráðuneytið í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þingsályktunartillaga að stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024 til 2028 var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í gær. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en þar segir að með tillögunni verði fest í sessi áætlun um áframhaldandi kraftmikinn stuðning Íslands við úkraínsku þjóðina í baráttunni við innrásarlið Rússa auk endurreisnar og uppbyggingar innviða í landinu. 

Verði sambærileg stuðningi Norðurlandanna

Gert er ráð fyrir að framlög ársins 2024 verði aukin frá fyrra ári og heildarframlög íslenskra stjórnvalda vegna Úkraínu verði sambærileg stuðningi Norðurlandanna. Þá verði tekin ákvörðun um heildarframlög til Úkraínu í tengslum við fjárlög ár hvert, en lágmarksfjárhæð tryggð til næstu ára. 

„Í dag eru liðin tvö ár frá upphafi ólöglegrar og tilefnislausrar allsherjarinnrásar Rússa í Úkraínu. Innrásarstríðið er ein alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Langtímaáætlun í þessum efnum mun marka tímamót sem sýna svo ekki verður um villst að okkur er alvara með að styðja baráttu úkraínsku þjóðarinnar eins lengi og þarf,“ er haft eftir Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra.

Þingsályktunartillagan verður kynnt í þingflokkum og utanríkismálanefnd á næstu dögum en sterk þverpólitísk samstaða hefur ríkt á Alþingi um öflugan stuðning við Úkraínu.

Nánar um stuðning íslenskra stjórnvalda til Úkraínu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert