Hæð yfir Grænlandi og lægð við Noreg beina norðlægri átt til landsins og er víða spáð 5 til 15 metrum á sekúndu í dag, hvassast austantil á landinu.
Í suðurhluta landsins verður þurrt og víða bjart veður, en á Norður- og Austurlandi má búast við dálitlum éljum. Frost 0 til 5 stig, en kólnar í kvöld, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Á morgun verður áttin breytileg og vindur yfirleitt hægari. Víða bjartviðri og frost 1 til 12 stig.
Síðdegis snýst í hægt vaxandi sunnanátt og það hlýnar smám saman. Þá þykknar jafnframt upp vestantil á landinu og seint annað kvöld er útlit fyrir rigningu eða snjókomu á þeim slóðum.