Fjórir voru í fangageymslum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um fimmleytið í dag, að því er fram kemur í dagbók embættisins.
Hefur lögreglan haft í nógu að snúast frá klukkan fimm í morgun, þar á meðal vegna ástands einstaklinga, umferðarmála og minniháttar mála.
Lögregluþjónar á stöð 1 handtóku mann á stolinni bifreið fyrr í dag. Var viðkomandi einnig með þýfi á sér úr öðrum málum. Maðurinn var vistaður í fangaklefa og er málið nú til rannsóknar hjá lögreglu.
Minnst þrír ökumenn hafa verið stöðvaðir í dag grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.
Þá var einstaklingur handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna ölvunar og fyrir að hafa brotið rúðu. Þegar viðkomandi var kominn inn í lögreglubifreið náði hann einnig að skalla lögreglumann.