Gjald sem Sorpa innheimtir vegna förgunar olíumengaðs úrgangs sem urðaður er í Álfsnesi, svo sem vökva úr sand- og olíuskiljum bílaþvottastöðva, hækkaði um tæplega 130% um sl. áramót, fór úr 21,88 krónum á kílóið í 49,96 krónur án vsk.
Hörður Ingi Þórbjörnsson rekstrarstjóri Löðurs segir í samtali við Morgunblaðið að tveir verktakar starfi fyrir fyrirtækið sem safni saman þessum úrgangi og komi honum í Álfsnes. Algengt er að fluttir séu 5.000 til 7.500 lítrar hvert sinn og nemur kostnaður eftir hækkun 249.800 til 374.000 krónum og er hækkunin á bilinu 140.400 til 209.000 krónur fyrir farminn. Aðrir kostnaðarliðir hafa ekki hækkað.
„Þetta breytir rekstrarforsendum okkar. Við reynum að halda sama verði, en þetta er mikill kostnaður og við þurfum að bregðast við og þurfum að leita leiða til þess að láta okkar trygga kúnnahóp ekki standa undir þessu,“ segir Hörður Ingi.
„Þetta er ekki hvetjandi fyrir starfsemi eins og okkar þar sem skiptir gríðarlegu máli að huga að umhverfisvörnum. Við erum að verjast því að fá þessi efni út í umhverfið,“ segir Hörður Ingi sem segir þetta íþyngjandi fyrir reksturinn.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.